Fara á efnissvæði
18. september 2024

Tilnefndu til Hvatningarverðlauna

UMFÍ óskar eftir tilnefningum frá sambandsaðilum til Hvatningarverðlauna UMFÍ, sem afhent verða á 45. Sambandsráðsfundi UMFÍ, sem fram fer á Hótel Varmalandi 12. október næstkomandi. 

Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sambandsaðila UMFÍ, aðildarfélaga, deildar innan aðildarfélags eða einstaklings innan félags, sem skara fram úr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. 

Heimilt er að veita allt að þrjár tilnefningar hverju sinni. 

Hvatningarverðlaunin eru viðurkenningarskjal og fjárupphæð sem stjórn ákveður hverju sinni. Ef handhafi verðlaunanna er einstaklingur fær félag viðkomandi sömuleiðis viðurkenningarskjal. 
Hver sambandsaðili getur skilað inn fimm tillögum. 

Tillögum skal skila í síðasta lagi 1. október næstkomandi á netfangið umfi@umfi.is 
 

Starf sjálfboðaliða og fjölbreytt starf 

Hvatningarverðlaun UMFÍ eru veitt árlega ýmist á sambandsþingi UMFÍ eða á sambandsráðsfundi.

Á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór á Hótel Geysi fyrir ári hlutu þrenn verkefni verðlaunin. Þau hlutu Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) fyrir starf sjálfboðaliða og skipulagningu í kringum starfið tengt körfuknattleiksdeild Tindastóls, Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) fyrir gott og fjölbreytt starf fyrir iðkendur Þróttar á öllum aldri þar sem sérstök áhersla er á inngildingu og leiðir til að ná til fjölbreytts hóps iðkenda og að lokum Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) fyrir körfuknattleiksdeild Hauka – Special Olympics. 

Hér að ofan má sjá mynd frá afhendingu Hvatningarverðlaunanna á síðasta ári.

Smelltu hér til að lesa meira um verðlaunin