Töfrarnir gerast í skipulögðu starfi
„Þróttur Vogum er eitt af töfrabrögðunum í okkar samfélagi. Þau felast í því að börn sem stunda íþróttir, skipulagt starf, eru ekki bara hamingjusamari, glaðari, í betra líkamlegu og andlegu formi og minna einmana, heldur skora þau hærra á öllum þessum kvörðum í því að ná árangri í lífinu,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Auður hélt ávarp í veglegu 90 ára afmæli Þróttar Vogum um síðustu helgi en félagið var stofnað 23. október árið 1932. Um 200 gestir mættu í afmælið, sem var í Stóra-Vogaskóla.
Mikill uppgangur hefur verið hjá Þrótti upp á síðkastið. Þar er m.a. boðið upp á badminton, júdó, sund, körfuknattleikur og knattspyrna en Þróttur átti lið í Lengjudeildinni í sumar. Það er besti árangurinn í sögu knattspyrnudeildar Þróttar.
Auður lagði í ávarpi sínu áherslu á jákvæð tengsl skipulags starfs fyrir lýðheilsu iðkenda og benti á að umræðan um stöðu barna hafi verið neikvæð upp á síðkastið.
„Við höfum áhyggjur af samfélaginu okkar, börnunum okkar og ungmennunum okkar,“ sagði hún og benti á að niðurstöður kannana bendi til að 49% barna sem stunda íþróttir eru hamingjusöm á meðan 20% barna eru hamingjusöm sem ekki stunda íþróttir,“ sagði hún og rifjaði upp að skilgreiningin á ungmennafélagsandanum er sú að rækta sjálfan sig og samfélagið um leið.
„Eitt af gildum ungmennafélagshreyfingarinnar er gleði. Það er því vissulega gaman að sjá að þetta skín allt í gegn hér. Þetta eru töfrabrögðin í okkar samfélagi. Það er, að halda börnunum okkar í skipulögðu starfi. Þess vegna skiptir það engu máli hvort þau stunda fótbolta, handbolta, fimleika eða glímu. Það skiptir máli að þau stundi skipulagt starf. Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá að félagið er að auka framboð á því sem er í boði á vegum félagsins því það eykur líkurnar á því að það nái árangri með fleiri börn. Það er stóri árangurinn af starfinu okkar,“ sagði Auður Inga og afhenti síðan Petru Ruth Rúnarsdóttur, formanni Þróttar, skjöld frá UMFÍ í tilefni dagsins.
Ungmennafélagsandinn í Þrótti
Fleiri héldu erindi í afmælisveislu Þróttar Vogum. Þar á meðal Einar Haraldsson, formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, og Rúnar Arnarson, fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur. Rúnar sagði Þrótt Vogum til fyrirmyndar fyrir önnur félög. Hann hvatti bæjarstjórn og bæjarbúa til að styðja við félagið.
„Bærinn og félagið eru eitt. Þetta er lykillinn að því að byggja upp gott félag er að allir gangi í takt,“ sagði hann og hvatti bæjarbúa til að gefa kost á sér til starfa fyrir Þrótt, því félagið geti ekki starfað nema með sjálfboðalum.
Petra Ruth, formaður Þróttar, rifjaði líka upp sögu félagsins og sagði það hafa gegnt fjölbreyttu hlutverki í Vogunum. Hún benti á að Ungmennafélagsandinn hafi ávallt verið sterkur hjá félaginu og allir getað fundið eitthvað við sitt hæfi. Það skili því að flestir Vogabúar, þar á meðal hún sjálf, hafi á einhverjum tímapunkti fundið tengsl við félagið hvort heldur sem stuðningsmenn, iðkendur, félagsmenn eða foreldrar.
Á myndinni hér að ofan eru þau Petra Ruth, formaður Þróttar Vogum, Auður Inga frá UMFÍ, og Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar.