UMFÍ greiðir út rúmar 30 milljónir króna
Íslensk getspá hefur greitt eigendum sínum 250 milljónir króna í aukagreiðslu vegna góðs árangurs af lottóspili á árinu. UMFÍ á 13,33% í Íslenskri getspá og fékk því um 33 milljónir króna. Stjórn UMFÍ ákvað á fundi sínum 16. desember að greiða upphæðina út fyrir jólin samkvæmt reglugerð til sambandsaðila. Það var gert í vikunni.
Greiðslan er viðbót við regluglega stuðning UMFÍ við sambandsaðila.
UMFÍ hefur nokkrum sinnum á síðustu árum fengið aukagreiðslu sem þessa frá Íslenskri getspár. Sambandsaðilar UMFÍ nutu að sjálfsögðu góðs af því þá eins og nú.
Eigendur Íslenskrar getspár eru þrír. Það eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem á 46,67% hlut og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), sem á 40%. Eins og áður sagði á UMFÍ 13,33%.
Aukagreiðslan sýnir vel að í hvert sinn sem spilað er í Lottói þá styður viðkomandi við starf íþróttafélaga um allt land.
Sambandsaðilar UMFÍ eru 27 talsins sem skiptast í 22 íþróttahéruð og 5 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 480 félög innan UMFÍ með rúmlega 290 þúsund félagsmenn. Innan hvers sambandsaðila er fjöldi félaga, sem eru að mestu íþróttafélög. Þar á meðal eru öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu og næstum því öll félög á landinu öllu.