Umsóknir um styrki í þágu farsældar barna
Mennta- og barnamálaráðherra auglýsir eftir umsóknum um styrki frá íslenskum félagasamtökum til verkefna sem varða farsæld og samfélagslega virkni barna. Þar á meðal menntun, frístundir, íþróttir, vernd og réttindi barna, í þjónustu við börn og fjölskyldur, m.a. forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir og þjónustu er miðar sérstaklega að börnum í viðkvæmri stöðu og þar með talið börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Félagasamtök sem hljóta styrki á fjárlögum eða eru með samninga við ráðuneytið eða stofnanir þess, vegna skilgreindra verkefna, geta ekki sótt um styrki af safnliðum fjárlaga fyrir sömu verkefni. Um er að ræða styrki í eitt skipti, sem eru ætlaðir sem hluti af innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Styrkir að þremur milljónum
Styrkir eru veittir þeim sem uppfylla skilyrði til að fá styrk samkvæmt mati ráðherra, sjá reglur um styrkveitingar mennta- og barnamálaráðherra. Miðað er við að styrkfjárhæðir séu á bilinu 200.000 kr. til 3.000.000 kr., en í undantekningartilvikum er unnt að veita hærri styrki.
Sótt er um styrk á Mínum síðum á vef Stjórnarráðsins undir mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Frestur til að leggja fram umsókn er til föstudagsins 7. júní 2024. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um verkefnið, hvernig umsækjandi hyggst vinna verkefnið og hvort það hefur notið styrkja frá öðrum aðilum. Vakin er athygli á því að umsækjandi kann að þurfa að leggja fram frekari upplýsingar, m.a. um faglega hæfni og rekstrarhæfi, samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins.
Frestur til að sækja um styrk er til föstudagsins 7. júní 2024.