Unglingarnir í Stykkishólmi undirbúa landsmót
„Við viljum vera á góðum tíma með skipulagningu og uppsetninguna,‟ segir Flemming Jessen, sérgreinastjóri í boccía. Hann ásamt fleirum merkti í gær gólf íþróttahússins í Stykkishólmi fyrir keppni í boccía. Landsmót UMFÍ 50+ fer fram í bænum um helgina.
Í boccía eru skráð 24 lið sem er átta liðum meira en á mótinu í Borgarnesi í fyrra. Þetta er ellefta skiptið sem UMFÍ heldur landsmót fyrir fimmtíu ára og eldri en það fyrsta fór fram á Hvammstanga árið 2011.
Gera skemmtilega helgi
Undirbúningur er í fullum gangi fyrir mótið í Stykkishólmi. Vinnusamir unglingar í bæjarvinnunni hafa gert íþróttavöll bæjarins að fyrirmyndarsvæði, slegið grasið, lagað kastsvæði og fleira í þeim dúr.
Á myndunum hér má sjá Flemming með þeim Jóni Eyþóri Lárentínusarsyni, Arnari Hreiðarssyni og Magnúsi Bæring auk þeirra Bærings, Omo og Bencoe úr bæjarvinnunni raða upp og merkja boccíavellina í íþróttahúsinu í dag.
Opið í margar greinar fyrir 18+
Fjöldi fólks frá fimmtugu og upp úr tekur þátt í mótinu um helgina í fjölmörgum greinum. Þrátt fyrir heiti mótsins er opið fyrir þátttöku 18 ára og eldri í valdar greinar og getur fólk bæði keppt og prófað nýjar greinar.
Dagskrá mótsins er fjölbreytt og því ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Á meðal greina í boði eru:
Boccía, bridds, frjálsar íþróttir, golf, götuhlaup, hestaíþróttir, hjólreiðar, körfubolti 3:3, pútt, ringó, skák, stígvélakast og sund.
Að auki geta allir sem vilja spreytt sig í eftirfarandi:
Badminton, hlaupaskotfimi (biathlon), borðtennis, frisbígolf, hádegisjóga, petanque, pílukast og fleira.
Tveir aðgangsmiðar eru í boði: Hvítt armband er fyrir 50 ára og eldri og gildir í allar greinar. Rautt armband er fyrir 18 og eldri og gildir það í tilteknar greinar.
Allt um mótið á og greinarnar á www.umfi.is