Fara á efnissvæði
23. febrúar 2023

Ungmennaráð UMFÍ og Ungmennaráð Grafarvogs funda saman í fyrsta sinn

Bryddað var upp á nýjungar og samvinnu hjá Ungmennaráði UMFÍ sem fram fór í gær. Þjónustumiðstöð UMFÍ flutti nýverið á nýjan stað í Íþróttamiðstöðinni við Engjaveg í Reykjavík og er þar enn verið að innrétta. Fundaraðstaðan er því takmörkuð.

Málfríður Sigurhansdóttir, skrifstofustjóri Ungmennafélagsins Fjölnis, stjórnarkona í UMFÍ og tengiliður stjórnar við Ungmennaráðið, fékk aðstöðu hjá Fjölni til fundarhalda. Ungmennaráðið fékk því inni hjá Ungmennafélaginu Fjölni í Grafarvogi. Eftir að Ungmennaráðið hafði rætt og skipulagt ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, viðburðinn samtal ungmennaráða og skemmtisólarhring ungmennaráða fundaði hópurinn með Ungmennaráði Grafarvogs.

Bæði ungmennaráðin fengu að lokum kynningu á starfsemi Fjölnis og leiddu þau Málfríður og Arnór Ásgeirsson, íþróttastjóri Fjölnis, hópinn um mannvirkin í Egilshöll og sýndu þeim æfingaaðstöðu félagsins.

Þetta var fyrsta skiptið sem Ungmennaráð UMFÍ og Ungmennaráð Grafarvogs fundar saman. Fundur þeirra gekk afar vel, meðlimir ráðanna spjölluðu um verkefni sín og deildu bæði hugmyndum og þekkingu sín á milli. Að viðburðinum loknum fór hópurinn í pílukeppni.

Stefnt er að enn fleiri sameiginlegum viðræðum ungmennaráða, svo sem á ungmennaráðstefnunni Ungu fólki og lýðræði, sem er á dagskrá í september og viðburðinum samtal ungmennaráða þar sem enn fleiri ungmennaráð bera saman bækur sínar.

 

Hér er meira um ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði

Hér má lesa meira um Ungmennaráð UMFÍ