Ungmenni í leiðtogavinnu
Meðlimir í ungmennaráði UMFÍ sátu tvær norrænar ráðstefnur í byrjun sumars í Danmörku og á Grænlandi Nordisk Ungdomsorganisation (NordUng) eða Nordic Youth Organisations eru regnhlífarsamtök fyrir ungmennasamtök, fyrst og fremst fyrir Norðurlöndin en einnig fyrir önnur samtök innan Evrópu sem vilja starfa með Norðurlöndunum. Ungmennaráð UMFÍ er aðildarfélag NordUng og í tengslum við það gátu fjögur ungmenni á vegum ráðsins sótt leiðtogavinnustofu NordUng í Kaupmannahöfn í maí. Vinnustofan var í Rödekro í Danmörku dagana 17.–21. maí og fóru utan á vegum UMFÍ þær Embla Líf Hallsdóttir, formaður ungmennaráðs UMFÍ, Halla Margrét Jónsdóttir, varaformaður, sem reyndar er búsett ytra, og þær Hrefna Dís Pálsdóttir og Sara Jóhanna Geirsdóttir Waage, sem eru skemmtanastjórar ungmennaráðs UMFÍ. Í leiðtogavinnustofunni voru þátttakendur á aldrinum 15–39 ára frá mörgum löndum, langflestir frá Norðurlöndunum en líka frá Úkraínu og Eistlandi.
Hópurinn hristur saman
„Það var skemmtilegt að fara yfir það hversu margar tegundir af leiðtogum eru til og hvers konar leiðtogar við viljum vera,“ segir Embla Líf um fyrsta daginn í leiðtogavinnustofunni í Danmörku. Þar var hópurinn hristur saman svo að allir þátttakendur gætu kynnst betur til að njóta næstu daga betur. Á meðal þess sem var kennt var skilgreining á því hvað leiðtogi er og hvernig það er fyrir fólk að vinna saman í hópi. Þátttakendum var skipt upp í tvo vinnuhópa: Fullorðinsfræðslu (e. Adulthood Academy) og Ungmennaviku (e. Youth Week). Allur fulltrúar ungmennaráðs UMFÍ voru í fyrrnefnda hópnum. Hóparnir unnu vel saman og bjuggu meðal annars til bækling, skipulögðu hlaðvarp og komu með hugmyndir fyrir komandi verkefni hjá NordUng.
101 heimilishald
Sara Jóhanna var í hópnum sem skipulagði hlaðvarpið og í því ræddu þau um aukin útgjöld og ábyrgð en Embla, Halla og Hrefna unnu að gerð bæklings ásamt þátttakanda frá Úkraínu. Fyrri hluti bæklingsins fjallaði um eitt og annað sem ungt fólk þarf að hafa í huga við heimilishald þegar það flytur úr foreldrahúsum, þar á meðal hvernig á að þrífa föt og híbýli, skipuleggja innkaup fyrir vikuna og þess háttar.
„Þegar við vorum að búa til bækling fyrir ungmenni um hvernig eigi að þrífa fengum við svo ólíka sýn á hvað fólk vildi, af því að við vorum frá svo mismunandi löndum,“ segir Embla. „Það sem virkar fyrir okkur á Íslandi virkar ekki endilega fyrir aðra, það var svolítið skrýtið og krefjandi en líka skemmtilegt,“ segir hún.
Seinni hluti bæklingsins fjallaði um fjármál, hvað þarf að greiða þegar flutt er að heiman, tryggingar, lán, sparnað og fleira. Verkefnið um fullorðinsfræðsluna er að sögn Emblu langtímaverkefni, sem var sett í salt og verður þróað áfram síðar. „Hlaðvarpið er ekki komið út því að ég held að það eigi eftir að gera fleiri hlaðvarpsþætti. Bæklingurinn er heldur ekki alveg tilbúinn,“ heldur Embla áfram en bætir við að mismunandi bakgrunnur þátttakenda í vinnustofunni hafi skapað góðar umræður fyrir hlaðvarpið. Fullorðinsfræðslan var góð að mati allra og nauðsynleg enda voru þátttakendur allir sammála um að ungu fólki væri ekki kennt nógu vel hvernig lífið er þegar farið er úr föðurhúsum og hvað það þýðir að fullorðnast.
„Bæklingurinn getur því verið virkilega gagnlegur ungmennum líka hér á Íslandi og mögulega skemmtilegt verkefni fyrir íslensk ungmenni að þýða bæklinginn þegar hann er orðinn fullklár,“ segir Embla að lokum.
Ungmennavika á Grænlandi
Áherslur vinnustofunnar í Danmörku, bæði bæklingurinn og fleiri verkefni, voru í raun undirbúningur fyrir ungmennaviku sem haldin var í Nuuk á Grænlandi á vegum NordUng dagana 22.–30. júlí. Embla fór þá aftur utan ásamt 24 öðrum þátttakendum frá Íslandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi og Eistlandi.
Ungmennavikan hét á grófri íslensku: Ungmennavika: Baunasúpa: Samneyti í fjölbreyttu samfélagi (e. Youth Week: „Pea soup: Coexistence in a diverse society“). Í ungmennavikunni í Nuuk var áherslan á tengsl meirihlutahópa og minnihlutahópa. Þátttakendur lærðu um hvað meiri- og minnihlutahópar eru, bæði í kringum okkur og í heiminum, og var hópnum skipt upp.
Hópur Emblu fjallaði um hinsegin samfélagið í Ungverjalandi og komst að því að þar má hinsegin fólk hvorki ganga í hjónaband né ættleiða börn. Hópurinn skoðaði líka hvað það er að vera valdeflandi og hvernig það er að vera valdeflandi innan minnihlutahópa, hvernig þau geta verið valdeflandi og hverjir gera þau valdeflandi.
Í lok vikunnar fóru þau yfir það sem þeim fannst mikilvægast við það sem þau lærðu yfir vikuna og bjuggu til texta og tóku upp efni sem verður klippt saman í nokkur myndskeið. Verða þau samantekt af vikunni og fræðsla til annarra ungmenna, sýnd á heimasíðu NordUng.
„Grænland er töluvert öðruvísi en ég átti von á. Ég var kannski með einhverja ákveðna ímynd af Grænlandi en það var ekkert eins og ég átti von á. Sérstaklega þegar við festumst á flugvellinum, þetta er eitthvað svo eðlilegt fyrir Grænlendingunum,“ segir Embla og vitnar í ævintýrið þegar þau festust á flugvellinum í Kangerlussuaq, en þar tók við 32 klukkustunda bið í stað þess að stoppa í fjóra tíma.
Eigum að fá jöfn tækifæri
Embla Líf segir það mikilvægt að UMFÍ haldi áfram að styðja við ferðir ungmenna til annarra landa, enda séu þær afar mikilvægur og fróðlegur skóli sem allir ættu að upplifa.
„Ég væri klárlega til í að fara aftur út í svona ferð. Ferðirnar gáfu mér svo mikið og ég lærði gríðarlega mikið. Í báðum ferðunum var fólk frá mismunandi löndum og við lærðum mikið af því. Það sama á við um fræðslu um minnihluta- og meirihlutahópana,“ segir Embla.
„Það væri áhugavert að skoða stöðu mismunandi hópa innan UMFÍ hjá sambandsaðilum, hvort börn séu að upplifa og fá sömu réttindi innan síns héraðs varðandi æfingatíma, hvort og hvernig munur er hjá þeim að komast á æfingu, hvernig þátttaka þeirra er í æskulýðsstarfi og margt fleira. Það sem ég lærði á klárlega eftir að nýtast mér í vinnu við fleiri viðburði hjá UMFÍ, ég er með opnara hugarfar og sveigjanlegri gagnvart ólíkum hópum sem bæði leita til UMFÍ og þeirra sem UMFÍ og ungmennaráðið þurfa að leita til. Við komum hvert úr sinni áttinni og höfum mismunandi bakgrunn. Draumurinn er að engu skipti úr hvaða hópi fólk kemur, öll ættum við að fá að vera í þeirri íþrótt eða í því æskulýðsstarfi sem við viljum,“ segir Embla að lokum.
Viltu koma í Ungmennaráð?
Opið er fyrir umsóknir í Ungmennaráð UMFÍ til 15. desember næstkomandi.
UMFÍ óskar eftir tilnefningum og umsóknum í Ungmennaráð UMFÍ fyrir starfstímabilið 2023 - 2025.
Ungmennaráð UMFÍ er skipað ellefu ungmennum með tilliti til jafnrar aldursdreifingar, kyns og búsetu.
Hlutverk Ungmennaráðs UMFÍ er að vera stjórn UMFÍ til ráðgjafar um málefni ungs fólks og skipuleggja og standa fyrir viðburðum fyrir ungt fólk. Fundir ráðsins eru að öllu jafna haldnir á 4 – 6 vikna fresti ýmist með fjarfundarbúnaði og/eða sem staðfundir.
Þátttaka í ungmennaráði UMFÍ veitir einstaklingum tækifæri til þess að kynnast starfi UMFÍ og ungmennafélagshreyfingarinnar. Þátttakendur kynnast ungmennum alls staðar af landinu, fá tækifæri til þess að vinna að viðburðum allt frá hugmyndastigi til framkvæmdar og hafa áhrif á aðra í sínu nærumhverfi.
Umsóknarfrestur er til 15. desember 2023.
Viðtalið hér að ofan er í 2. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur lesið blaðið allt á umfi.is og á issuu.com.