Ungt fólk blómstrar í ungmennaráði UMFÍ
Þátttaka í Ungmennaráði UMFÍ veitir ungu fólki mörg tækifæri bæði innanlands og utan. Kolbeinn Þorsteinsson er rétt rúmlega tvítugur en hefur verið virkur í félagsstörfum frá unga aldri og átt sæti í fjölda ungmennaráða. Hann hefur verið í Ungmennaráði UMFÍ frá því hann var sextán ára og komið að skipulagningu og framkvæmd nokkurra ungmennaráðstefna. Í ágúst fór hann einn á ungmennaviku norrænna ungmennasamtaka á Álandseyjum.
Hvers vegna ákvaðstu að ganga í Ungmennaráð UMFÍ?
„Ég hafði verið virkur í ungmennaráðum í skóla og nemendaráði bæði í grunnskóla og menntaskóla,” segir Kolbeinn. „Mér finnst mjög gaman að vinna með öðru ungu fólki, sérstaklega þeim sem hafa mikla snertingu við íþróttir. Eins og Ungmennaráð UMFÍ. Ég var í handbolta sem krakki hjá Fram að æfa og dæmi nú í dag. Mér finnst gaman að fá að vera hluti af félagsskapnum. Þegar ég sá auglýsingu um sæti í ungmennaráði UMFÍ, þá hugsaði ég: Af hverju ekki? Þetta var spennandi tækifæri til að prófa nýja hluti. Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á félagsstörfum og fannst ég geta lagt eitthvað til málanna,” segir Kolbeinn en viðurkennir að hann hafi ekki skipulagt sig neitt sérstaklega í aðdraganda þess að hann sótti um sæti í Ungmennaráði UMFÍ.
Alla jafna hefur verið auglýst sæti í Ungmennaráði UMFÍ í kjölfar þinga að hausti. Nú hefur Ungmennaráðið hins vegar heimild til að taka inn einstaklinga á aldrinum 15-25 ára sem óska eftir því á öðrum tímum ársins svo lengi sem einhvern meðlim vantar.
En áfram að Kolbeini. Skipulagsleysið og óðagotið olli því að hann telur sig hafa verið samþykktan inn í ráðið, mögulega fyrir mistök, sem vissulega skrifast á hann.
„Ég sá auglýsinguna og sótti um sem félagi í HSH [innskot: Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu]. Ég veit ekki af hverju ég gerði það, hlýt að hafa ruglast. Þau sem fóru yfir umsóknina hafa auðvitað haldið að ég væri frá Snæfellsnesi eða nágrenni og samþykkt mig inn af því að leitað er eftir því í ráðinu að fá ungt fólk með dreifingu af öllu landinu. En það voru náttúrlega mistök sem skrifast á mig. En þetta kom mér í Ungmennaráðið,“ segir Kolbeinn.
Kolbeinn er borinn og barnfæddur Reykvíkingur úr Hjálmsholtinu. Hann er fæddur árið 2002 og var um 16 ára þegar hann tók sæti í Ungmennaráði UMFÍ. Hann hafði þegar aflað sér mikillar reynslu af setu í ungmennaráðum Unicef og Barnaheilla, verið virkur í nemendaráðum Háteigsskóla og Fjölbrautar í Ármúla og svo má lengi telja.
Kolbeinn segir félagsstörf góð og gefandi fyrir ungt fólk.
„Mér finnst ég hafa stækkað heilmikið og öðlast mikla reynslu. Þegar maður byrjar í nefndum og ráðum er maður svolítið mikið úti í horni að fylgjast með í fyrstu en svo verða allir öruggari,“ segir hann.
„Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á mig,“ segir Kolbeinn og telur að öðru fremur hafi ögrunin sem felst í þátttöku í félagsstarfi mótað hann sjálfan.
„Samstarf og samvinna með öðrum hefur líka bætt margt hjá mér, sérstaklega félagsfærnina. Ég hef lært að hlusta á mismunandi sjónarmið, sem hefur verið ómetanlegt. Ég hef einnig öðlast meira sjálfstraust, sérstaklega þegar kemur að því að tjá mig opinberlega. Áður en ég gekk í ungmennaráð var ég frekar feiminn við að tala fyrir framan stóran hóp af fólki. Í dag gengur það betur,” segir Kolbeinn og bætir við að auk þessa hafi hann fengið mörg tækifæri við skipulagningu viðburða eins og ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðheilsa. Starf Ungmennaráðsins gangi auðvitað varla án aðkomu Ragnheiðar Sigurðardóttur, verkefnastjóra UMFÍ. „Ef ekki væri fyrir hana þá værum við á kafi,” viðurkennir Kolbeinn.
Áskoranir og Álandseyjar
„Ráðstefnan Ungt fólk og lýðheilsa hefur verið einn af hápunktum mínum. Þarna fann ég hversu mikilvæg rödd unga fólksins er og hvernig við getum lagt okkar af mörkum til samfélagsins,“ segir hann.
Kolbeinn segir eina af stærstu áskorunum ungs fólks felast í því að það þurfi hvatningu til að hafa trú á eigin getu. „Við höfum oft þessa tilfinningu að stjórnmál eða lýðræði sé fyrir fullorðna fólkið, en það er einfaldlega ekki rétt. Við erum framtíðin og það er mikilvægt að við tökum þátt frá unga aldri. Því fyrr sem við byrjum, því meiri áhrif getum við haft,“ segir hann.
En hvernig var á Álandseyjum og hvernig kom sú ferð til?
„Ég fór til Álandseyja í ágúst síðastliðnum og tók þátt í ungmennaviku á vegum NordUng. Þetta var ótrúlega skemmtileg og fræðandi vika. Reyndar stóð til að við færum þrjú saman frá Íslandi. En það breyttist. Þrátt fyrir það ákvað ég að halda planinu og fara einn,” segir Kolbeinn, sem flaug til Stokkhólms í Svíþjóð og tók þaðan ferju til Álandseyja. Eyjarnar eru um það bil miðja vegu á milli Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands og tekur siglingin þangað sjö klukkustundir.
Um 30 ungmenni sóttu ungmennavikuna frá hinum Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Þýskalandi.
Þarna dvöldu þau í viku þótt sjálfur hefði hann vel getað hugsað sér að vera þarna í ár.
Kolbeinn segir upplifunina hafa verið frábæra og fræðandi:
„Við ræddum um ýmis hagsmunamál ung- menna, svo sem menntun, atvinnumál og lýðræðislega þátttöku. Einnig var áhersla á sjálfsrækt og hvernig við getum bætt okkur sjálf sem einstaklingar,“ segir hann og bætir við að sérstaklega hafi verið áhugavert að hitta ungt fólk frá hinum Norðurlöndunum, marga sem hann hefur enn samband við eftir að heim var komið.
„Það er svo mikið sem við eigum sameiginlegt, en líka margt sem er ólíkt. Ég lærði líka mikið um það að fara út fyrir þægindarammann. Við tókum þátt í verkefnum sem ögruðu okkur og ýttu okkur til að hugsa á annan hátt.“
Áhrif og framtíðarsýn
Hvernig hefur þátttaka í ungmennaráði hér heima og fundinum á Álandseyjum haft á þig?
„Þátttakan í ungmennaráði hefur hjálpað mér að verða til og móta framtíð mína,“ segir Kolbeinn. „Ég hef lært að ég get haft áhrif á samfélagið og að rödd mín skiptir máli. Þetta hefur veitt mér trú á sjálfan mig og gefið mér verkfæri til að skapa betri heim. Ég er meira meðvitaður um mikilvægi þess að ungt fólk hafi rödd og að við getum tekið virkan þátt í samfélaginu.“
Hvað myndir þú segja við ungt fólk sem langar til að fara í ungmennaráð?
„Ég hvet allt ungt fólk til að gera það. Það er ótrúlega gefandi að vera hluti af svona sterkri heild. Allir eru óöruggir í fyrstu. En hver einstakl- ingur finnur styrk í hópnum og vex með honum. Ég hef einmitt tekið eftir því sjálfur þegar nýtt fólk kemur í Ungmennaráð UMFÍ. Ég sé að þau eru óörugg og þekkja stundum engan. En ég veit líka að við erum eins og blóm og þau munu blómstra, vaxa og dafna.“
Viðtal í Skinfaxa
Viðtalið við Kolbein er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Skinfaxi er aðgengilegur í sundlaugum og íþróttahúsum víða um land. Blaðið er líka hægt að lesa á umfi.is og á umfi.is/skinfaxi