Fara á efnissvæði
18. nóvember 2022

USAH fagnaði 110 ára afmæli

„Þetta gekk fínt og allir fóru út ánægðir,“ segir Snjólaug Jónsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur-Húnvetninga (USAH) en sambandið fagnaði 110 ára afmæli með glæsilegri veislu á Blönduósi í gær. Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, var á meðal gesta afmælisins ásamt þeim Andra Stefánssyni og Hafsteini Pálssyni frá ÍSÍ, fulltrúum aðildarfélaga USAH og sveitarfélaga.

Gunnar Þór afhenti Snjólaugu viðurkenningarskjöld frá UMFÍ í tilefni dagsins og sagði stjórn, sjálfboðaliða og starfsfólk aðildarfélaga USAH hafa tekist afar vel að vinna með öðrum og efna til ýmissa samstarfsverkefna. Svo vel hafi tekist til að UMFÍ hafi á dögunum veitt sambandinu Hvatningarverðlaun fyrir verkefni sem stuðlað hefur að góðu og árangursríku samstarfi á milli félaga á svæði USAH allt inn í Skagafjörð.

„Það er til fyrirmyndar því samvinna og samstarf er lykill til framtíðar. Enginn er eyland og enginginn gerir neitt einn. Þess vegna skiptir öllu máli að ná til þeirra sem af einhverjum sökum eru ekki með,“ sagði hann og vakti athygli á því að gögn úr Ánægjuvoginni, samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ, sýni að börnum á Norðurlandi líki vel við íþróttafélög sín og þjálfara. Þar á meðal á sambandssvæði USAH. Þeim finnist mörgum gaman á æfingum og þeim nemendum sem stundi íþróttir oft í viku séu almennt sátt við lífið og tilveruna. Þetta skipti máli því niðurstöður Ánægjuvogarinna staðfesti öðru fremur forvarnargildi og mikilvægi skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs.

„Það er afar jákvætt því jákvæðir iðkendur sem hafa heilbrigt líferni að leiðarljósi eru ólíklegri en aðrir til að leiðast út í óæskilega hegðun,“ sagði hann og benti á að ekki síður skipti máli að sjálfsmynd einstaklinga í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er sterkari en annarra. Þeir iðkendur geti staðið traustum fótum þegar óæskileg leið stendur til boða.

Af þeirri ástæðu sé mikilvægt að ná til fleiri, sérstaklega barna, ungmenna og annars fólks sem af einhverjum ástæðum tekur ekki þátt í skipulögðu starfi eða upplifir sig ekki sem hluta af hópi.

„Við þurfum einfaldlega líka að hjálpast að til að finna leiðir til að uppfylla mismunandi þarfir iðkenda svo sem flestir geti tekið þátt og verið með í starfinu,“ sagði hann.

 

Fleiri myndir úr afmælinu