Fara á efnissvæði
28. mars 2025

Vel heppnað málþing um íþróttaiðkun barna með fatlanir

„Fólk var mjög ánægt með málþingið og erindin sem þar voru flutt. Þótt þau hafi verið ólík mynduðu þau heild og fundum við það vel hjá fundargestum að vilji er til að vinna betur saman að framtíðarsýn sem felur í sér samvinnu íþróttafélaga, skóla og sveitarfélaga, bæði í málefnum iðkenda með fötlun, fólks af erlendu bergi brotið og iðkenda af tekjulægri heimilum,“ segir Sigurður Friðrik Gunnarsson, annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Suðurnesjum.

Hann og Petra Ruth Rúnarsdóttir skipulögðu málþing um íþróttaiðkun barna með fatlanir á Suðurnesjum sem fram fór á mánudag.

Um 70 manns mættu í Hljómahöllina, hlýddi fólk þar á nokkur ólík erindi og tók þátt í hópavinnu þar sem komið var á framfæri hugmyndum um framtíðarsýn íþróttaiðkunar barna með fatlanir á Suðurnesjum. Á meðal þátttakenda voru forsvarsfólk frá íþróttahreyfingunni, ÍSÍ, UMFÍ, sérsamböndum og íþróttafélögum á Suðurnesjum.

Málþingið var samstarfsverkefni Íþróttafélagsins NES, Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB), Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS) og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF).

 

Framtíðin liggur í auknu samstarfi

Á málþinginu var boðið upp á fimm erindi þar sem fagfólk og reynslumiklir einstaklingar úr íþróttahreyfingunni fóru yfir stöðu mála, hindranir og sóknarfæri sem tengjast málefninu. Þeirra á meðal var Kristín Margrét Ingibjargardóttir, sem hélt áhrifaríkt erindi þar sem sjónarmið og upplifun hennar sem foreldris barns með fötlun innan íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum vakti athygli gesta.

Í kjölfar erinda var boðið upp á spurningar og umræður úr sal þar sem ýmis sjónarhorn komu fram er varðar aukið samstarf almennra íþróttafélaga, sveitarfélaga og skólasamfélagsins í þessum málaflokki.

Málþinginu lauk með hópavinnu þar sem gestir og flutningsmenn erinda unnu saman að hugmyndum um framtíðarsýn íþróttaiðkunar barna með fatlanir á Suðurnesjum.
Á næstu mánuðum er stefnt að því halda áfram markvissri vinnu að eflingu og samstarfi við hagaðila.

 

Kortleggja stöðuna

Á meðal þess sem framtíðarsýn málþingsgesta felur í sér er kortlagning á stöðu mála á Suðurnesjum og samspil og aukið samræmi skóla, sveitarfélaga og íþróttafélaga í þá átt að ná betur til þeirra sem ekki taka þátt í skipulögðu starfi.

„Við vorum mjög ánægð með málþingið og gestir líka enda rauði þráðurinn sá að fólk vill vinna meira saman til að ná árangri,“ heldur Sigurður áfram og bendir á að á meðal þeirra sem þátt tóku í málþinginu sitji sum bæði í stjórnum íþróttahéraða og í íþrótta- og tómstundaráðum sveitarfélaga.

 

Myndina hér að ofan og nokkrar myndanna hér að neðan tók Magnús Orri Arnarson.