Victor ráðinn rekstrarstjóri UMSK
Victor Ingi Olsen hefur verið ráðinn í starf rekstrarstjóra Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) og hefur hann þegar hafið störf.
Victor tekur við af Valdimari Gunnarssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra UMSK. Victor er með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MSc - gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu úr íþróttahreyfingunni en hann vann árum saman hjá Ungmennafélaginu Stjörnunni í Garðabæ ásamt því að sitja í Íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar, stjórn Íslensks toppfótbolta (ÍTF) og sinnt verkefnum á vegum Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ).
Victor mun meðal annars hafa umsjón með daglegri stjórnun og rekstri UMSK ásamt samskiptum við aðildarfélög, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila innan íþróttahreyfingarinnar. Þá mun hann aðstoða stjórn við að ljúka og fylgja eftir stefnumótun UMSK.
Á næstunni mun Victor Ingi heimsækja aðildarfélögin og kynna sér betur þá fjölþættu starfsemi sem fer fram innan UMSK. Starfsstöð Victors Inga er að Engjavegi 6. Netfang UMSK er umsk@umsk.is og síminn er 514 4090.
Innan UMSK er íþróttafélög í Kraganum svokallaða, íþrótta- og ungmennafélög í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Kjós. Þar á meðal eru Afturelding í Mosfellsbæ, Grótta á Seltjarnarnesi, Stjarnan í Garðabæ, Breiðablik, Gerpa og HK í Kópavogi og mörg fleiri.
UMFÍ hélt Íþróttaveisluviðburði í samstarfi við UMSK og fleiri í fyrra. Á meðal þeirra voru Drulluhlaup Krónunnar, Hundahlaup UMFÍ og Non-Stop Dogwear og Forsetahlaup UMFÍ.