„Við erum með tuttugu gáma af sandi en eigum engan pening“
Valdimar Smári Gunnarsson er mörgum kunnur vegna ötulla starfa sinna í þágu heilsueflingar landsmanna, bæði á vegum og UMFÍ og UMSK, og að eigin frumkvæði. Hann hætti í sumar sem framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), en sambandið er einn af stærstu sambandsaðilum UMFÍ. Undir því er fjöldi íþróttafélaga í Kraganum, til dæmis Stjarnan í Garðabæ, Grótta á Seltjarnarnesi, Afturelding í Mosfellsbæ og Breiðablik, HK og Gerpla í Kópavogi.
Valdimar hefur gríðarlega ástríðu fyrir heilsueflingu fólks og hefur sá undirliggjandi kraftur gert það að verkum að honum hefur tekist að flytja heilu fjöllin, í raun tuttugu gáma af sandi, til þess að koma öðrum á hreyfingu – og til að auka velsæld þeirra. Bílddælingar njóta sérstaklega góðs af því, en Valdimar ber afar sterkar taugar til litla þorpsins fyrir vestan hvar hann leit dagsins ljós árið 1958.
„Bíldudalur er nafli alheimsins“
Valdimar segir að æska hans á Bíldudal hafi einkennst af frelsi og öryggi. Móðir hans starfaði sem ljósmóðir en faðir hans vann ýmis störf, sinnti meðal annars flugvellinum á Bíldudal sem er enn í fullri notkun. „Bíldudalur er jú nafli alheimsins. Að minnsta kosti fyrir marga,“ segir Valdimar kíminn en meinar það reyndar alveg, enda fullgildur meðlimur í félagi brottfluttra manna sem elska Bíldudal. Þorp sem er á stöðugri uppleið, þökk sé Valdimari og fleiri góðum einstaklingum sem bera hag Bíldudals fyrir brjósti.
Þegar strákurinn var að alast upp var aðstaða til íþróttaiðkunar í bænum ekki bara takmörkuð heldur nákvæmlega engin. Það lét drengurinn ekki stoppa sig. Hann var alltaf með bolta í fanginu og lék sér úti frá morgni til kvölds.
En ekki voru öll uppátækin jafn skynsamleg. „Við höfðum fjallið og fjöruna fyrir okkur og það voru reyndar alveg geggjuð leiksvæði. Við
vinirnir lékum okkur úti meira eða minna allan daginn í alls konar leikjum. Ég hafði sérstaklega mikinn áhuga á fótbolta, var alltaf með bolta og skaut honum þá í hlöðudyr því það var jú hvergi neitt fótboltamark að finna í bænum,“ segir Valdimar. Mörgum árum síðar átti hann eftir að koma því til leiðar að í bænum var gerður grasvöllur, frjálsíþróttavöllur og upplýstur sparkvöllur fyrir fótboltakappa á öllum aldri.
Rassskellti skipherrann
Eins og margir af eldri kynslóðum vita og muna voru leikir barna á árum áður margir stórhættulegir. Valdimar og leikfélagar hans voru meðal þeirra barna sem lifðu sannarlega á brúninni í litlu sjávarplássinu. Þeir gerðu ótal margt sem væri stranglega bannað í dag, meðal annars að sigla á ísjökum með því að stjaka sér áfram á bambusstöng út á sjó.
Valdimar kann margar æsilegar sögur úr ævintýrum æskunnar. Hér er ein: „Einu sinni vorum við þrír litlir félagar að sigla á svona einhvern veturinn og náttúrulega vorum við miklir skipherrar. Ég man að ég sigldi Bismarck og svo voru vinir mínir á öðrum þekktum „skipum“. Við flutum þarna eitthvað fram og til baka en svo gerðist það að einn vinur minn fór of djúpt þannig að bambusstöngin hans náði ekki lengur til botns. Hann rak bara út og það endaði auðvitað með því að hann fór að hágráta. Blessunarlega átti maður leið þarna hjá sem kom til bjargar. Hann var að keyra eftir fjallshlíðinni heim í hádegismat þegar hann sá skipherrann grenjandi á herskipinu, fljótandi langleiðina á haf út. Maðurinn brunaði niður í fjöru, kom hlaupandi niður bakkann, kastaði sér út í sjó og synti að jakanum til að bjarga félaganum. Synti svo með hann í land, en þar reif hann niður um strákinn brækurnar og rassskellti sjálfan skipherrann. Hann hundskammaði hann og sagði að þetta skyldi hann aldrei gera aftur!“ segir Valdimar og skellir upp úr en heldur svo áfram að þetta hafi ekki stöðvað neinn:
„Eftir þessa uppákomu fylgdumst við alltaf grannt með því hvort maðurinn væri einhvers staðar sýnilegur því auðvitað létum við okkur ekki segjast og héldum siglingum áfram. Það sem mér finnst svo fallegt við þetta er hversu vel er passað upp á krakka í svona litlu samfélagi. Það koma allir að uppeldinu og taka ábyrgð.“
Tuttugu gámar af möl – jafn margir úr hjálparsveitinni
Þegar Valdimar var hættur að lifa áhættusömu lífi á ímynduðum herskipum í Arnarfirðinum og kominn til vits og ára rann upp fyrir honum að algjör skortur var á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Bíldudal.
Slíkt gengi auðvitað ekki lengur, svo hann fékk nokkra í lið með sér til að stofna félag.
Mynd 1: Hér má sjá Boðhlaupssveit Íþróttafélags Bíldudals taka við gullverðlaunum á héraðsmóti Hrafna-Flóka árið 1983. Valdimar er númer þrjú í röðinni af fjórum.
„Það hét einfaldlega Íþróttafélag Bíldudals og við fórum beint í að byggja upp frjálsíþróttavöll. Allt af mikilli hugsjón og í hreinni sjálfboðavinnu og við gerðum allt sem mögulega hægt var að gera til að koma vellinum upp, sumt sem má reyndar ekki færa í prent,“ segir hann og kímir, en það er óhætt að fullyrða að hann hafi verið alveg framúrskarandi ráðagóður þegar kom að því að leita lausna. Þegar kom að því að búa til hlaupabraut reyndist til dæmis engin möl til á svæðinu, svo að Valdimar tók upp símann og hringdi í fyrirtæki í Reykjavík sem hét Sandur.
„Ég spyr hvort þau eigi svona efni og segist þurfa tuttugu gáma. Þau áttu það til en þá var það pælingin hvernig í andskotanum ætti að koma tuttugu gámum af möl alla leiðina vestur frá Reykjavík! Ég hringdi þá í skipafélag sem sigldi vikulega vestur frá höfuðborginni og sagðist hringja frá íþróttafélaginu á Bíldudal. Ég sagði: „Við erum með tuttugu gáma af sandi en eigum engan pening. Getið þið hjálpað okkur?“ Það gerðu þeir án þess að taka neitt fyrir. Það var svo margt svona sem gerðist. Allir til í að hjálpa öllum. Eins og til dæmis þegar við vorum að tyrfa fótboltavöllinn. Það gekk hálf brösuglega, svo ég brá á það ráð að hringja í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Þar sagði ég að mig vantaði svona tuttugu manns sem gætu komið vestur eina helgi og hjálpað okkur að tyrfa völlinn. „Ég get borgað fimmtíu þúsund. Eruð þið til?“
Svarið var bara þrefalt já. Þau voru sko aldeilis til. Svo ég hringi í flugfélagið og segi að ég þurfi að koma tuttugu sjálfboðaliðum vestur sem ætli að hjálpa okkur að tyrfa fótboltavöllinn. Spyr hvort þau geti hjálpað með því að fljúga þeim á Bíldudal fyrir ekki neitt. Þeir sögðust ætla að skoða þetta, svo var hringt aftur skömmu síðar: „Heyrðu, við þurfum að skreppa klukkan fjögur og vélin er tóm. Við getum gert þetta. Svo að tuttugu hjálparsveitarmeðlimum var flogið vestur og allir fóru í að tyrfa. Svona gerðum við alveg ótrúlega hluti,“ segir Valdimar og nýtur þess að rifja upp lífið fyrir vestan – og lausnirnar sem varð að grípa til því ekkert gerist af sjálfu sér.
Sparkvöllur í staðinn fyrir rækjur
Að íþróttakennaranámi loknu fór Valdimar aftur vestur á Bíldudal til að kenna íþróttir. Hann ætlaði sér fyrst að vera bara í einn vetur en fjölskyldan kunni svo vel við sig að þeir urðu átta. Á þessu tímabili var stöðugt verið að betrumbæta íþróttaaðstöðuna og þá var farið í að byggja sparkvöllinn sem nefndur var hér að framan með hárri girðingu og flóðlýsingu. En hvernig var það fjármagnað?
Jú, með rækjum!
„Á Bíldudal voru gerðir út tíu rækjubátar. Ég fór að kvöldlagi, þegar orðið var mjög dimmt, og heimsótti alla skipstjórana. Sagði þeim hvað ég hugðist gera og spurði hvort þeir væru tilbúnir í að gefa mér einn kassa af rækju sem yrði landað framhjá vigtinni á hverjum föstudegi. Ég útskýrði fyrir þeim að ég væri þegar búinn að tala við vigtunarmanninn og langaði því næst að vita hvort skipstjórarnir væru til í að gefa mér rækjur út veturinn. Það reyndust allir til, svo ég fór og heimsótti verkstjórann í rækjuverksmiðjunni og tilkynnti honum að ég fengi tíu kassa af nýrri rækju á hverjum einasta föstudegi og spurði hvort hann væri til í að skipta; láta mig hafa einn kassa af unninni rækju fyrir hvern kassa af óunninni. Hann græddi á því og ég græddi sannarlega á því þar sem ég var búinn að semja við hótel í Reykjavík um að kaupa tíu kassa í hverri viku og þannig fjármögnuðum við þennan völl! Þetta var náttúrlega vita ólöglegt. En það er allt í lagi að liðka aðeins til þegar málstaðurinn gagnast öllu samfélaginu. Þetta hefur skilað sér margfalt til samfélagsins,“ segir Valdimar.
Mynd 2: Hið sigursæla knattspyrnulið ÍFB árið 1992 eftir að hafa unnið héraðsmót Hrafna-Flóka þrjú ár í röð.
Valdimar segir hugsun sína alltaf hafa einkennst af þeirri sannfæringu að allt sé hægt, svo lengi sem fólk hafi fyrir því að finna leiðir til að láta hlutina ganga upp. Hugsi í lausnum.
Spurður hvort hann hafi alltaf verið þannig segir hann það frekar hafa gerst með árunum. Hann hafi verið mjög feiminn sem krakki en þegar ástríðan tók yfir hafi feimnin fokið ásamt öðrum hindrunum í lífinu.
„Þegar ég var búinn að læra og byrjaður að kenna íþróttir á Bíldudal voru um 90 prósent krakkanna að æfa frjálsar, þar á meðal hin þjóðþekkta Vala Flosadóttir, sem bjó í þorpinu til um fjórtán ára aldurs. Við náðum alveg gífurlegum árangri á þessum árum og íþróttalífið í þessum litla bæ varð mjög öflugt. Við vorum meira að segja með meistaraflokk í knattspyrnu og tókum þátt í Íslandsmótum í einhver tvö ár. Þetta var samt mjög skrítið umhverfi því strákarnir sem voru í liðunum voru kannski að koma vestur til að vinna á sumrin og fóru á haustin. Svo var kannski leikur á laugardegi en þá frétti maður um morguninn að helmingurinn af liðinu væri kominn út á togara og þá þurfti að redda einhverjum til að spila í leiknum. Það var alltaf eitthvað svona að koma upp á en þetta kenndi manni að leita lausna sem stundum voru óhefðbundnar og áræðnar,“ segir Valdimar.
Unglingamótið sem breyttist í fjölskylduhátíð
Eftir átta ár sem íþróttakennari á Bíldudal hugðist Valdimar hefja nám í Kennaraháskólanum. Hann hafði þá kennt tíma í almennri kennslu í grunnskólanum og lagðist það vel í hann. En námið í Kennaraháskólanum stóðst ekki væntingar. „Fyrsta námskeiðið gekk bara út á að föndra og lita og klippa út dúkkulísur. Ég fann strax að ég nennti ekki að standa í þessu, svo ég hætti og tók að mér að gerast framkvæmdastjóri fyrir Unglingalandsmót UMFÍ, sem var haldið fyrir vestan árið 2000. Það reyndist áskorun því það þurfti tvö hundruð og fimmtíu manns til að vinna á mótinu. Við fórum þá að velta því fyrir okkur hvernig við gætum leyst vandann. Allir voru að vinna í frystihúsunum eða úti á sjó og eina ráðið var að finna einhvern tíma þar sem allir væru í fríi. Og hvaða tími var það? Jú, verslunarmannahelgin var laus!“
Mynd 3: Kátir þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ.
Valdimar segir að flestum sem heyrðu hugmyndina fyrst hafi ekki alveg litist á planið. En þar sem þetta var með sanni eini tíminn til að ná saman rúmlega tvö hundruð manns var áætluninni haldið. Mótið tókst stórkostlega vel og hefur upp frá því verið haldið um verslunarmannahelgi á hverju ári.
„Mótið hafði verið haldið tvisvar sinnum áður, en þá var þetta svona hefðbundið íþróttamót þar sem foreldrarnir voru ekki endilega með. En með því að hafa það um verslunarmannahelgi breyttist mótið í allsherjar fjölskylduhátíð, sem var frábært því þarna gafst fjölskyldum kostur á að mæta með börnin sín í áfengislaust umhverfi yfir þessa ágætu helgi,“ bendir Valdimar á.
Mynd 4: Fjölmenni og kátína á Unglingalandsmóti UMFÍ.
Landsmót UMFÍ var á pari við Ólympíuleikana
UMFÍ hefur tekið miklum breytingum í áranna rás, enda gamalt félag svo að ekki er við öðru að búast. Valdimar þekkir söguna vel.
„Í gamla daga var Landsmót UMFÍ mótið sem allir biðu eftir. Bara eins og Ólympíuleikarnir. En með árunum fór alls konar mótum að fjölga svo svakalega að þátttaka á landsmótinu dalaði og lognaðist á endanum út af. Á móti jókst þátttakan á Unglingalandsmótinu alveg gríðarlega. Í kjölfar þessarar þróunar var ákveðið að hætta alveg við Landsmótið, sem hafði þá alltaf verið haldið á fjögurra ára fresti um árabil, og leggja í staðinn allt kapp á að efla Unglingalandsmótið. Á sama tíma ákváðum við líka að búa til mót fyrir fimmtíu ára og eldri, en það hefur núna verið haldið í rúman áratug. Á því er keppt í alls konar greinum; frjálsum, sundi, boccia, skák, bridge, stígvélakasti og fleiru. Eina skilyrðið fyrir þátttöku er að hafa náð fimmtíu ára aldri. Fólk þarf ekki að hafa neina reynslu og má alveg vera nýbyrjað að iðka, sem þýðir til dæmis að ef þú ætlaðir að keppa í skák væri eina þátttökukrafan sú að þú kynnir mannganginn, því þetta snýst um að vera með frekur en að vinna,“ segir hann og bætir við að síðasta mót hafi farið fram í Borgarnesi og verið ágætlega sótt.
Ungmenni er afstætt hugtak
Eins og skilja má af því sem hér hefur komið fram er hugtakið „ungmenni“ greinilega afstætt hjá UMFÍ. Því til endanlegrar staðfestingar er nýlegt samvinnuverkefni félagsins við Kópavogsbæ og íþróttafélögin þar, Breiðablik, Gerplu og HK þar sem markmiðið er að efla heilsu og þrótt eldri borgara.
Mynd 5: Þátttakendur í verkefninu Virkni og vellíðan við mælingu á árangri undir lok síðasta árs.
Verkefnið kallast Virkni og vellíðan og hefur að sögn Valdimars algerlega slegið í gegn. Nú mæta meira en tvö hundruð manns á æfingar í hverri viku og hópur þátttakenda stækkar stöðugt.
„Reyndar eru það sextíu ára og eldri sem eru gjaldgengir því hugsunin er sú að ef þú byrjar nógu snemma er auðveldara að viðhalda lengur styrknum og þróttinum sem skapast við æfingarnar. Þau sem eru í Virkni og vellíðan æfa alls konar íþróttir og iðka ýmsa hreyfingu. Til dæmis chi-gong, jóga, æfingar með tækjum og lóðum, stunda göngu og margt fleira, en starfið fer fram í knattspyrnuhöllunum og í íþróttasal Gerplu. Þetta er alveg stórkostlega flott verkefni verð ég að segja og það er næstum því ókeypis. Það eina sem þarf er að mæta á staðinn og borga mánaðargjald sem er 3.500 krónur. Eins og staðan er í dag er bara boðið upp á Virkni og vellíðan í Kópavogi. En þetta verkefni verður að fara af stað víðar, helst um allt land og í öllum bæjar og sveitarfélögum,“ segir hann, enda afar áhugasamur að tvinna saman heilsueflingu og mannauðinn og þekkinguna sem er hjá öllum íþróttafélögum landsins.
Fara kokhraustari inn í unglingsárin eftir skólabúðir
Eins og lesa má af ofangreindu verða flest þau verkefni sem njóta góðs af hugmyndaauðgi og útsjónarsemi Valdimars rótföst og vinsæl og hafa flest þeirra dafnað og vaxið í marga áratugi.
Eitt af þessum verkefnum sem Valdimar kom að í upphafi er ungmenna- og skólabúðir fyrir grunnskólakrakka sem hafa nú verið haldnar árlega í mörg ár. Ungmennabúðirnar voru fyrstu árin á Laugum í Sælingsdal en voru fyrir nokkrum árum fluttar á Laugarvatn. Nýverið bættust líka við Skólabúðir á vegum UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði. Þá koma saman þúsundir barna úr ýmsum grunnskólum landsins til að kynnast hvert öðru og mynda ný tengsl og nýjan vinskap við krakka úr öðrum skólum, hverfum og landshlutum.
Mynd 6: Nemendur í Ungmennabúðum UMFÍ.
Í bæði ungmenna- og skólabúðunum er áhersla lögð á að börnin læri samskipti og virka samveru með jafnöldrum sínum og eru því símar og sjónvörp utan dagskrár. Þau koma einfaldlega ekki með. Í raun mætti líkja skólabúðunum við eins konar manndóms- eða fullorðinsvígslu, því margir foreldrar tala um að krakkar komi aðeins kokhraustari til baka úr skólabúðunum og þá væntanlega betur í stakk búin til að sigla inn í unglingsárin.
Útskrifaði orkumálastjóra úr trúðaskóla á Grænlandi
Valdimar hefur öðru fremur horft til þess lengi að leita leiða til að styrkja heilsueflingu almennings og búa til vettvang sem hefur það að markmiði að fólk á öllum aldri hreyfi sig.
Til að skapa svona fjölbreytta viðburði þarf góðar hugmyndir og á þeim er sannarlega enginn skortur hjá Valdimari. Slíkri hugsun bjó hann að þegar hann vann hjá Ungmennafélagi Íslands og sem framkvæmdastjóri Norrænu æskulýðssamtakanna (NSU) í þrjú ár.
„Starf NSU gekk meðal annars út á að efla vestnorrænt samstarf milli Íslands, Grænlands og Færeyja og tengja ungmenni frá þessum svæðum með fjölbreyttum hætti. Þegar kom að fulltrúum Íslands að skipuleggja sinn hluta var ákveðið að vera með trúðaskóla á Grænlandi,“ segir Valdimar og brosir við að rifja þetta upp.
Mynd 7: Auglýsing fyrir námskeiðið á Grænlandi.
„Við buðum sex ungmennum frá hverju landi að taka þátt og fengum kennara úr trúðaskóla í Kaupmannahöfn til að taka kennsluna að sér. Þetta heppnaðist alveg ævintýralega vel og hafði frábær áhrif á krakkana, sem hafa í sjálfu sér notið góðs af þessari upplifun til frambúðar. Meðal annars urðu til tveir starfandi leikarar og svo var hún Halla Hrund, sem nú er orkumálastjóri, með í þessu námi. Ég held því alltaf fram að trúðaskólinn á Grænlandi hafi hjálpað henni að komast áfram í lífinu og meðal annars gerast kennari við Harvard,“ segir hann og hlær áður en hann heldur áfram:
Mynd 8: Halla Hrund undirbýr sig í trúðaskólanum.
„Grænlendingar áttu að taka að sér að skipuleggja næsta námskeið og voru með góðar hugmyndir en framkvæmdin gekk brösuglega, svo að við tókum við spöðunum fyrir þá og settum upp kvikmyndagerðarskóla á Ísafirði. Við réðum Hilmar Oddsson leikstjóra og hans hóp til aðstoðar og vorum svo heila viku á Ísafirði þar sem við gerðum bíómynd í fullri lengd. Í myndinni töluðu Íslendingar íslensku, Færeyingar færeysku og Grænlendingar grænlensku. Ég man reyndar ekkert út á hvað handritið gekk. En þetta var alveg geggjað verkefni og þessi mynd á að vera til einhvers staðar,“ segir hann og ég hugsa að eflaust þætti mörgum gaman að sjá hana enda mikil framúrstefna í gangi.
Heilbrigðari almenningur
Þegar Valdimar tók til starfa fyrir Ungmennasamband Kjalnesinga árið 2008 fannst honum tilgangur eða hlutverk þess svolítið óljós. Keppnismótum hafði fjölgað verulega og öflug félög með sterka burði höfðu tekið við því starfi sem áður var á herðum UMSK. „Í þessu samhengi tókum við þá ákvörðun um að hugsa til heilsueflingar almennings og leita frekar eftir því að skapa alls konar fjölbreytta viðburði sem hafa það eitt að markmiði að fleiri landsmenn, á öllum aldri, taki upp á því að hreyfa sig í samfélagi við annað fólk,“ segir hann.
Af nýlegum verkefnum sem Valdimar hefur komið að skortir heldur ekkert á frumlegheit eða uppátækjasemi. Í sumar sem leið stóð hann, ásamt UMSK, að því að halda íþróttaveislu UMFÍ, en í því sambandi var þremur hlaupamótum hleypt af stokkunum. Þau reyndust hvert öðru skemmtilegra.
Þarna erum við að tala um hundahlaup UMFÍ og Non-stop dogwear á Seltjarnarnesi, forsetahlaup með Guðna forseta á Bessastöðum og Drulluhlaup Krónunnar í Mosfellsbæ.
„Hundahlaupið var smæsti viðburðurinn en samt voru þetta alveg tvö hundruð hundaeigendur sem komu saman á Seltjarnarnesi til að skokka með hundana sína og það telst mjög góður fjöldi miðað við að þetta var í fyrsta sinn sem það fór fram. Þetta heppnaðist alveg stórkostlega og mikil gleði var í röðum þátttakenda. Ég er viss um að þetta er viðburður sem á eftir að stækka og stækka með hverju árinu þrátt fyrir að sumrin séu uppfull af alls konar hlaupaviðburðum,“ segir hann og sem fyrrverandi hundaeigandi tek ég heilshugar undir að spáin muni rætast því flestir hundaeigendur hafa mjög gaman af að hittast með dýrin sín en tækifæri til þess eru af skornum skammti hérlendis.
Íþróttahreyfingin má ekki sofna á verðinum
Valdimar segist hafa áhyggjur af heilsufari landsmanna, enda hafi allar rannsóknir sýnt fram á að staðan fari ekki batnandi heldur þvert á móti. Hreyfingarleysi hrjáir marga með tilheyrandi afleiðingum en með því að standa upp og hreyfa sig, hvort sem er mikið eða mátulega, má bæta heilsuna og lengja lífið um nokkur ár ef því er að skipta.
Mynd 9: Sprett úr spori í Hundahlaupi Non-Stop Dogwear.
„Ég segi ekki að hreyfing sé eina lausnin. En hún getur breytt alveg gríðarlega miklu fyrir líkamlega heilsu og ekki síður andlega heilsu fólks. Fátt er verra fyrir manneskju en að sitja heima með eigin hugsunum, hreyfa sig ekki neitt og hitta fáa. Áhugi minn snýr að því að finna fjölbreyttar leiðir fyrir alls konar fólk svo að það geti eflt heilsu sína með tilkomu íþróttahreyfingarinnar. Ég vil að fjölbreytni og framboð aukist til muna og þá er ég að meina hvað sem er sem fær fólk til að langa til að hreyfa sig. Þess vegna mætti skipuleggja mót í gömlum útileikjum á borð við brennó og kýló. Það er hreyfing alveg eins og það er hreyfing að spila fótbolta. Það er mín skoðun að íþróttahreyfingin eigi að vera í forsvari fyrir því að fólk á öllum aldri geti stundað skemmtilega hreyfingu í sínu nánasta umhverfi. Það er alveg sama hvers konar hreyfing það er. Hundahlaupið er hluti af því að skapa fjölbreytni og það sama gildir um hin hlaupin, en hvert þeirra er skipulagt með ákveðinn markhóp í huga,“ segir Valdimar og leggur áherslu á að það þurfi að halda svona starfi áfram með því að búa til fleiri viðburði fyrir nýja og mismunandi markhópa og auðvelda fólki að taka þátt í einhverju sem gefur ánægju, í nærumhverfi sínu.
Mynd 10: Fjör í Drulluhlaupi Krónunnar.
„Það er risastórt verkefni að fá almenning á hreyfingu. Eina aflið sem getur tekist á við þetta í nægilega umfangsmiklum mæli er íþróttahreyfingin að mínu viti. Íþróttahreyfingin hefur aðstöðu, mannafla og þekkingu til að gera þetta og mér finnst að stjórnvöld verði að vinna í því að fá íþróttahreyfinguna í lið með sér til þess að koma fleirum á hreyfingu; Ganga, skokka, stunda thai chi, jóga eða bara hvað sem er sem gerir manni gott. Þetta snýst um forvarnir og lýðheilsu og ég vil sjá íþróttafélögin okkar sem eins konar miðstöð sem miðlar og kemur í framkvæmd,“ segir Valdimar og bætir við að læknar séu nú farnir að skrifa út hreyfiseðla eins og lyfseðla.
Mynd 11: Afdrifaríkt feilspor í Drulluhlaupi Krónunnar.
„Það eru gefnir út tvö þúsund hreyfiseðlar á ári en vandamálið er ekki endilega að fólk sé ekki tilbúið að leysa þá út heldur er bara skortur á aðgengilegu framboði af hreyfingu fyrir alla hópa. Fólk er eins misjafnt og það er margt. Til dæmis langar ekki alla í líkamsræktarsal að lyfta lóðum en það er oft það fyrsta sem fólk hugsar þegar talað er um hreyfingu. Þá vantar hugmyndirnar og úrvalið og að upplýsingum um valkosti sé haldið að fólki án þess að það þurfi að leita,“ segir hann og undirstrikar að íþróttahreyfingin megi ekki sofna á verðinum. „Það breytist allt svo hratt núna. Það sem var vinsælt fyrir fimm árum það kannski ekki lengur, svo að þau sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna verða að vera á tánum og fylgjast með því, annars rennur félagið út á tíma og heyrir síðan sögunni til,“ segir hann.
Mynd 12: Hlaupið af stað í Forsetahlaupi UMFÍ.
Á Bíldudal er best að vera
Þótt Valdimar sé löngu brottfluttur frá Bíldudal ber hann mjög sterkar taugar til gamla þorpsins og er afar ástríðufullur þegar kemur að hag þess og velsæld. Liggur hann svo sannarlega ekki á liði sínu þegar eitthvað stendur til og hefur átt frumkvæði að mörgum uppátækjum og framkvæmdum. Fyrir um tuttugu árum kom hann, ásamt fleiri brottfluttum og heimamönnum, bæjarhátíðinni Bíldudals grænar baunir á laggirnar. Þegar hátíðin hafði fest sig í sessi var auðvitað ekki hætt heldur var ráðist í að búa til Skrímslasetur til heiðurs vestfirskum skrímslum. Safnið er opið á sumrin en á veturna er aðstaðan nýtt til útleigu og annars.
„Þetta er eiginlega menningarsetur. Muggsstofa er í húsnæðinu og svo er aðstaða fyrir eldri borgara til að stunda félagslíf, bókaklúbbur, fönduraðstaða og fleira,“ segir Valdimar og það er augljóst hvað honum þykir innilega vænt um bæinn. „Ég á lítið hús á Bíldudal og þegar ég kem vestur fara batteríin í mér í sjálfvirka hleðslu. Það er eitthvað svo gott við að vera þarna sem mér finnst erfitt að útskýra,“ segir hann hugsi og fær sér kaffisopa.
Hótel Bíldudalur á næsta leiti
Frjálsíþróttavöllur, sparkvöllur, skrímslasetur, bæjarhátíð og hvað svo?
Er Valdimar hættur að efla Bíldudal eða er fleira í farvatninu? Hann segir að svo sé sannarlega ekki.
„Ég gleymdi reyndar alveg að minnast á Arnarlax. Flestir hafa heyrt um það fyrirtæki, enda eitt stærsta fiskeldi landsins. Færri vita þó að það var stofnað fyrir tólf árum af nokkrum brottfluttum Bílddælingum í þeim tilgangi að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Það gekk vonum framar og nú starfar þarna fullt af fólki. Við sem stofnuðum fyrirtækið erum samt löngu hættir og farnir út, enda var markmiðið aðeins að koma því á fót og láta í hendurnar á öðrum þegar það hefði náð góðri siglingu,“ segir Valdimar, sem stendur að allri þessari umfangsmiklu uppbyggingu ásamt þremur vinum sínum sem allir bera sterkar taugar til bæjarins.
Næsta mál á dagskrá verður svo að láta byggja hótel sem verður sannkölluð bæjarprýði.
„Hótelið er hannað eftir tveimur húsum sem voru byggð árið 1884. En þau brunnu því miður til kaldra kola árið 1927. Þegar húsin voru byggð á sínum tíma þóttu þau einhver glæsilegustu hús á Íslandi. Markmið okkar er að láta endurbyggja þessi fallegu hús og reka þar hótel,“ segir Valdimar og sýnir mér teikningar af þessum sérlega flottu húsum sem minna svolítið á stemmninguna við höfnina á Siglufirði, en hann sér fram á að byggingarnar verði tilbúnar árið 2024.
Hefur aldrei verið í betra formi
Valdimar er kominn vel yfir sextugt en satt að segja lítur hann ekki út fyrir að vera mikið eldri en fertugur. Hann segist aldrei hafa verið í jafn góðu formi og að hann líti á það sem skyldu sína að sýna gott fordæmi. Hann mætir þrisvar sinnum í viku í litla líkamsræktarstöð í Grafarholti sem hann lætur mjög vel af.
Stöðin heitir Ultraform og hann segir hana þá allra bestu sem hann hafi komið inn í.
Mynd 13: Valdimar ásamt Þóri Erlingssyni, verkefnastjóra í Íþróttaveislunni sumarið 2022.
„Svo spái ég alltaf mikið í mataræðið. Ég segi að það sé jafn mikilvægt og hreyfingin, ef ekki mikilvægara, en ég hef þetta einfalt og reyni að flækja ekki hlutina. Reyni bara að borða ekki það sem er ekki gott fyrir mig, flóknara er það nú ekki,“ segir hann glettinn en bætir svo við að það takist reyndar ekki alltaf.
„Það er bara best að passa sig að vera ekki alltaf að sulla í því sem er ekki gott fyrir mann. Mikið betra að taka það allt á einum degi eða kvöldi, svona svipað eins og þegar menn voru að detta í það,“ segir hann gamansamur.
Gullmaðurinn Valdimar
Að endingu er gaman að segja frá því að fyrir framúrskarandi störf var Valdimar heiðraður með Gullmerki UMFÍ, Gullmerki UMSK og Gullmerki ÍSÍ á dögunum. Gullmerki UMFÍ er veitt af stjórn UMFÍ til handa þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum sambandsins.
Mynd 14: Valdimar á 100 ára afmælishátíð UMSK.
Valdimar er sannarlega vel að þeim kominn, enda býr hann yfir einstakri náðargáfu þegar kemur að mannlegum samskiptum, lausnamiðun og stórkostlegri útsjónarsemi. Á löngum ferli hefur einlæg ástríða hans á heilsueflingu nýst þúsundum Íslendinga á öllum aldri til að auka lífsgæði sín með bættri heilsu en sjálfur segist hann hafa fundið fyrir því að ástríða sé smitandi.
Mynd 15: Valdimar og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ í starfslokakaffi Valdimars hjá UMSK.
„Þegar fólk finnur fyrir ástríðu langar það til að taka þátt og að vera með. Það er bara svo einfalt að ef maður hefur ástríðu fyrir góðum málstað sem gagnast mörgum er hægt að flytja fjöll.“
Texti: Margret H.G Björnsson.
Athygli er vakin á því að eftir að viðtalið kom út í Skinfaxa var Valdimar ráðinn til að stýra nýju verkefni til þriggja ára á vegum ÍF, ÍSÍ og UMFÍ sem tengist inngildingu eða þátttōku allra barna í iþróttastarfi.
Viðtalið Valdimar birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Það er hægt að lesa á vefsíðu UMFÍ. Það er líka hægt að smella á forsíðu blaðsins hér að neðan.