Fara á efnissvæði
26. mars 2018

„Við viljum ekki lenda í slysum út af vondum vegi“

„Við erum að gera alveg jafn merkilega hluti og annað fólk, erum farþegar og keyrum bíla. En við viljum ekki lenda í slysum út af vondum vegi,“ segir Gunnar Einarsson, 14 ára í Ungmennaráði Seyðisfjarðar. Hann var á meðal 60 ungmenna á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór í síðustu viku.

Samgöngumál voru ofarlega í huga ráðstefnugesta og voru ungmennin mörg sammála um að vegir landsins eru í mjög lélegu ástandi, margir beinlínis hættulegir vegfarendum. Grindavíkurvegurinn var nefndur sérstaklega ásamt Reykjanesbraut og lögð áhersla á að laga vegina. Svipuðu máli gegnir um vegi á milli sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa hins vegar ekki heimild til að laga vegi sem teljast til þjóðvega landsins. Vegagerðin þurfi að veita sveitarfélögum heimild til að laga þá.

 

Fjármagna vegabætur með komugjöldum

Þátttakendur á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði eru sammála um að ástand vega landsins hafi versnað mikið eftir að erlendum ferðamönnum fjölgaði á Íslandi. Lagt er til að lögð verði komugjöld á erlenda farþega. Ef miðað er við að hver ferðamaður greiði 2.500 krónur við komuna til Íslands þá geta tekjur hins opinbera numið 5,5 milljörðum króna miðað við að rétt rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna komi til Íslands á hverju ári (tölurnar miðast við upplýsingar Hagstofunnar árið 2017). Fjármagnið sem komugjöldin skila á að leggja til samgöngubóta.

Fram kom í nýlegri öryggisúttekt EuroRap, sem gerir gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi vega, að um 75% af öllu íslenska vegakerfinu er með eina eða tvær stjórnur. Aðeins 25% af íslenskum vegum fær þrjár stjörnur eða meira.

Hér er hægt að sjá ástand einstakra vega í úttekt EuroRap.

Þátttakendur á ráðstefnunni sendu frá sér ályktun í lok ráðstefnunnar.

 

Ályktunin er svohljóðandi

Ungmennum á Íslandi finnst vegir landsins vera í niðurníðslu. Bæta þarf samgöngur um allt land og veita sveitarfélögum heimild til að laga vegi sem heyra undir Vegagerðina. Þar má nefna Grindavíkurveginn þar sem að mörg alvarleg slys og banaslys hafa orðið. Ungt fólk notar samgöngur daglega, hvort sem þau séu farþegar eða ökumenn og viljum við öll að þau komist heilu og höldnu til náms eða í vinnu. Samgöngubætur má fjármagna með komugjöldum á erlenda ferðamenn, þar sem þeir eru orðnir stór hluti þeirra sem nota vegakerfi landsins. Lítils háttar komugjald þarf til að fjármagna endurbætur á vegakerfinu.

Kvíði og þunglyndi hefur aukist mikið í röðum ungmenna á grunnskóla- og framhaldsskólaaldri.

Stytting framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú og minni tími nemenda til að sinna félagsstörfum er að stórum hluta orsakavaldur að mati ungmenna. Það þarf að festa það í lög að það séu starfandi sálfræðingar í öllum grunn- og framhaldssólum á landinu. Einnig vantar betri forvarnir í geðheilbrigðismálum og gætu starfandi skólasálfræðingar séð um þá fræðslu.

Þátttakendur ráðstefnunnar ræddu mikið um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár í sveitastjórnakosningum. Lýðræðisfræðsla og stjórnmálafræðsla þarf að vera aukin í grunn- og framhaldsskólum og nauðsynlegt er að gera heimasíðu Alþingis aðgengilegri og skiljanlegri.

 

Fleiri myndir frá ráðstefnunni