Vill gera hlutverk sjálfboðaliða eftirsóknarvert
„Við eigum marga og góða sjálfboðaliða hjá UMFÍ, trygga og trúa ungmennafélaga sem lyfta starfinu upp. Sjálfboðaliði leggur ótrúlega mikið af mörkum til að bæta heiminn. Sjálfboðaliði hugsar ekki um sig. Hann hugsar um aðra. Markmið okkar hjá UMFÍ er að hlutverk sjálfboðaliða sé eftirsóknarvert,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.
Haukur hélt ávarp við setningu Landsmóts UMFÍ 50+ í íþróttahúsinu í Neskaupstað í gærkvöldi. Mótið er haldið í samstarfi við Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og Fjarðabyggð.
Á myndinni hér að ofan er Haukur á milli þeirra Gunnars Gunnarssonar, formanns UÍA, og Karls Óttars Péturssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar.
Gildi og mikilvægi starfs sjálfboðaliða var Hauki ofarlega í huga. Hann sagði Gretu Thunberg í Svíþjóð vera til fyrirmyndar og aðra málsvara helstu framfaramála í heiminum í dag.
„Sjálfboðaliðinn er gríðarlega mikilvægur, ekki aðeins fyrir UMFÍ heldur allt félagastarf. Fyrir okkur öll. Sjálboðaliðastarf hefur verið grundvöllurinn í starfsemi ungmennafélagshreyfingarinnar. Af því erum við hjá UMFÍ stolt. Að fá að njóta starfsins ykkar. Þið gerið okkur betri. UMFÍ væri lítið án ykkar.“
Línudans og Einar Ágúst
Húsfyllir var á mótsetningunni í íþróttahúsinu í gærkvöldi. Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, tók þar við viðurkenningu fyrir að halda mótið, íslenski fáninn og Bláfáninn, fáni UMFÍ, hylltir, auk þess sem Einar Ágúst og tónlistarfólk tók nokkur lög og hitaði þátttakendur upp fyrir mótið.
Þá var keppt í línudansi og tóku hress lið þátt í þessari skemmtilegu keppninni.
Setningarávarp 9. landsmóts 50+, 28. - 30. júní 2019 í Neskaupstað.
Bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, bæjarfulltrúar, stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, góðir þátttakendur og gestir.
Ég býð ykkur öll velkomin á 9. Landsmót 50+ á vegum Ungmennafélags Íslands hér í Neskaupsstað þar sem mótshaldarinn er Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands í samvinnu við sveitarfélagið Fjarðabyggð. Fyrir hönd UMFÍ færi ég öllum sem að mótinu koma bestu þakkir. Ekki síst þeim sjálfboðaliðum sem gefa tíma sinn til að hjálpa okkur öllum að búa til gleðistundir. Sjálfboðaliðar eru fyrirmyndir.
Þá vil ég, fyrir hönd Ungmennafélags Íslands, færa landsmótsnefnd, Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands og bæjastjórn Fjarðarbyggðar þakkir fyrir allan undirbúning og uppbyggingu í tengslum við mótið. Einnig vil ég færa þakkir til allra sjálfboðaliða og starfsfólki Fjarðarbyggðar fyrir þeirra framlag við undirbúning og framkvæmd landsmótsins og þá ekki síst íbúum hér fyrir móttökurnar.
Það er virðingarstaða að vera sjálfboðaliði, sá sem leggur af mörkum til samfélagsins.
Nú á tímum er víða erfitt að fá sjálfboðaliða til starfa. Það á ekki aðeins við um okkur á Íslandi heldur félagasamtök um allan heim. Við eigum marga og góða sjálfboðaliða hjá UMFÍ, trygga og trúa ungmennafélaga sem lyfta starfinu upp. Markmið okkar hjá UMFÍ er að hlutverk sjálfboðaliða sé eftirsóknarvert.
Mér heyrist stundum eins og dregið hafi úr vilja fólks til að gefa vinnu sína öðru til hagsbóta. Ekki nema það fái eitthvað í staðinn, lækkun þátttökugjalda, afslætti og annað þvíumlíkt. Það er ekki réttur hugsanaháttur. Við sjáum það á helstu framfaramálum heimsins, Gretu Thunberg í Svíþjóð sem hefur ein og á barnsaldri vakið gríðarlega athygli á mikilvægi loftslagsmála. Það sama á við um alla þá sem brenna fyrir málstað. Sjálfboðaliði leggur ótrúlega mikið af mörkum til að bæta heiminn. Sjálfboðaliði hugsar ekki um sig. Hann hugsar um aðra. Sjálfboðaliðinn er gríðarlega mikilvægur, ekki aðeins fyrir UMFÍ heldur allt félagastarf. Fyrir okkur öll. Sjálboðaliðastarf hefur verið grundvöllurinn í starfsemi ungmennafélagshreyfingarinnar. Af því erum við hjá UMFÍ stolt. Að fá að njóta starfsins ykkar. Þið gerið okkur betri. UMFÍ væri lítið án ykkar.
Veruleg vakning hefur verið í samfélaginu um mikilvægi hreyfingar til að halda betur heilsu, halda hreyfigetu, auka lífsgæði og vellíðan fólks. Þetta er mikilvægt fyrir hvern og einn einstakling líkamlega, sálfræðilega og fyrir heilbrigðisstöðu þjóðarinnar sem heild. Þessi hópur sem hér er er fyrirmynd annarra til að draga vagninn í þessa átt, auka vellíðan fólks. Þetta tel ég vera eitt af stóru málum samfélagsins og lít á sem langtímaferli og markmið og 50+ mótin eru framlag UMFÍ til að efla bæta lýðheilsu.
En hvert landsmót 50+ er með sínum sérkennum á þeim stað þar sem það fer fram sem gerir það meira eftirsóknarvert að sækja mótin.
Í nýsamþykktri Íþróttastefnu ríkisins segir að markmið sveitar- og íþróttafélaga er að vinna áfram að því að auka aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum og að uppbygging íþróttamannvirkja taki mið af nýtingu fyrir skóla, íþróttafélög og almenning. Því er það von okkar hjá UMFÍ að það fjármagn sem komið hefur frá ríki og sveitarfélagi til uppbyggingar og viðhalds íþróttamannvirkja og aðgengi að þeim nýtist áfram í viðkomandi samfélagi sem flestum íbúum til góða.
Meginmarkmið UMFÍ er ræktun lýðs og lands sem er göfugt og í því felst að bæta stöðugt það sem fyrir er. Það er ætlun okkar hér að gera einmitt það. Að njóta lífsins, verða betri og bæta samfélagið um leið. Það er hinn sanni ungmennafélagsandi.
Ég segi 9. landsmót UMFÍ 50+ sett. Gangi ykkur öllum vel og takk fyrir mig.
Ungmennafélag Íslands hefur veitt viðkomandi bæjarfélagi sem stendur fyrir landsmótum á vegum hreyfingarinnar, í samvinnu við viðkomandi héraðssamband, viðurkenningarskjöld sem þakklætisvott fyrir að halda mótið í sínu sveitarfélagi.
Ég vil því biðja Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóra Fjarðarbyggðar, að koma hér og veita þessum viðurkenningarskildi viðtöku með ósk um að koma honum fyrir á hentugum stað í bænum til merkis um að mótið hafi farið hér fram.
Nokkrar myndir frá mótssetningunni