Fara á efnissvæði
25. maí 2018

Viltu hafa góð áhrif á aðra í Hreyfiviku UMFÍ?

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) heldur Hreyfiviku í sjöunda sinn dagana 28. maí – 3. júní. Þessa dagana leitum við að boðberum hreyfingar, fólki á öllum aldri sem fær aðra til að hreyfa sig og finna – ef vel tekst til – þá hreyfingu sem því finnst gaman að stunda reglulega.

Hreyfivika UMFÍ er samevrópskt lýðheilsuverkefni sem hefur það að markmiði að fjölga þeim sem hreyfa sig reglulega og hjálpa þeim sem vilja hreyfa sig en gera það ekki að finna sína uppáhalds hreyfingu stunda hana í 30 mínútur a.m.k. á dag.

Hreyfivikan fer fram í fjölmörgum Evrópulöndum á sama tíma undir nafninu Now We Move. UMFÍ hefur tekið þátt í verkefninu frá árinu 2012. Það stendur til ársins 2020.

 

Þúsundir hreyfa sig saman

Þúsundir Íslendinga taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ á hverju ári og njóta þess að hreyfa sig með öðrum. Á síðasta ári voru þátttakendur 43.000 sem tóku þátt í 490 viðburðum. Hreyfivikan hófst með fjöldajóga í Reykjanesbæ árið 2017.

 

Þetta gera boðberar hreyfingar

Hlutverk boðbera hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ er að virkja fólkið í kringum sig, vekja athygli á því sem er í boði tengt lýðheilsu og íþróttum í nærsamfélaginu og standa fyrir viðburðum af ýmsu tagi. Þeir geta falist í opinni æfingu fyrir alla, göngutúrum, sveitarfélagið getur boðið ókeypis ferð í sund eða tónelskur harmonikkuleikari slegið upp balli fyrir sveitunga sína.

Við höfum búið til hreyfibingó sem er einfalt að taka þátt í í Hreyfivikunni. Hreyfibingóið fylgir með í viðhengi. Í Hreyfibingóinu er hægt að smella af sér mynd að gera eitthvað skemmtilegt og setja á samfélagsmiðla undir myllumerkingu #minhreyfing.

 

Nánari upplýsingar um Hreyfiviku UMFÍ veitir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ, í síma 898-2279 og í netfanginu sabina@umfi.is.