Vissu ekki hvað votlendi gerir mikið gagn
„Við höfðum aldrei heyrt áður af því hvað votlendið gerir og vissum ekki hvað það er mikilvægt fyrr en nú. Það þarf að stækka votlendið miklu meira,‟ segir Guðbjörg frá Hafnarfirði, sem var þátttakandi á ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem fram fór í húsnæði Skólabúðanna á Reykjum í Hrútafirði um helgina.
Umfjöllunarefnið á ráðstefnunni voru umhverfis- og loftslagsmál og voru endurnýting, umhverfisspor fyrirtækja og neytenda og fleira í þeim dúr ofarlega á baugi. Ungmennaráð UMFÍ stendur fyrir ráðstefnunni og buðu um 70 þátttakendum á hana, þar á meðal ungmennaráðum sveitarfélaga og félagasamtaka á borð við Slysavarnafélagið Landsbjörgu.
Fjölmargir gestir komu á ráðstefnuna. Á laugardag komu þeir Sævar Helgi Bragason, sem margir þekkja sem Stjörnu-Sævar, og Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem stýrði málstofu fyrir þátttakendum um umhverfisspor og pælingar hvað neytendur geta gert til að minnka spor sitt.
Guðbjörg og vinir hennar við eitt af hópaborðunum sögðust aldrei hafa vitað hversu þurrkað votlendi er mengandi og hvað í raun lítill hluti af gróðurlendi sem búið er að þurrka upp er nýtt eða aðeins 20%. Með Guðbjörgu við borðið sátu þau Felix frá Akureyri, Anna Katrín, Líf og Ísak frá Akranesi og Benedikt úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Ráðstefna sem styrkir ungt fólk
Ráðstefnan hefur staðið yfir alla helgina. Í dag komu á ráðstefnuna þingmenn og sveitastjórnarfólk og tóku þau þátt í kaffihúsasamræðum um málefnið. Þar á meðal voru þær Þá Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og María Rut Krstinsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar, Píratarnir Björn Leví Gunnarsson og Gísli Rafn Ólafsson, Ingibjörg Isaksen, þingkona Framsóknarflokksins, og Steinar Ingi Kolbeins, aðstoðarmaður umhverfisráðherra.
Auk þeirra tóku Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Málfríður Sigurhansdóttir, stjórnarkona í UMFÍ, þátt í kaffispjallinu.
Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði hefur verið haldin árlega síðan árið 2009 og hefur hún fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðburðunum fyrir ungt fólk á Íslandi. Á ráðstefnunni er ævinlega lögð áhersla á að efla lýðræðilega þátttöku ungs fólks og þátttakendum gefin tól og ráð til að styrkja ímynd sína og gera þeim betur en áður kleift að taka upplýstar ákvarðanir um líf sitt og lífsstíl.
Erasmus+ styrkir ráðstefnuna.