Velkomin í Skólabúðir UMFÍ
Skólabúðir UMFÍ er staður þar sem samvera, samvinna, jákvæðni, virk þátttaka og gleði eru mikilvæg atriði. Við vinnum saman að því að gera skemmtilega upplifun að góðum minningum.
Við hlökkum til að taka vel á móti þér með gleði, traust og samvinnu að leiðarljósi.
Ertu að koma til okkar? Þetta er gott að vita fyrir brottför
-
Það er alltaf best í heimi ef allt gengur snuðrulaust fyrir sig. Þá njóta líka allir dvalarinnar. Við hvetjum alla til þess að hafa eftirfarandi tilmæli og viðmið í huga svo upplifunin verði gagnleg og góð fyrir sem flesta:
- … njótum þess að vera í Skólabúðunum!
- … leggjum okkur fram við að eignast nýja vini.
- … njótum þess að vera í nýju umhverfi.
- … notum tímann til þess að kynnast sjálfum okkur betur.
- … komum fram við alla af kurteisi og virðingu.
- … tökum virkan þátt í öllum viðburðum og námskeiðum.
- … hjálpumst að við að ganga frá og skilja vel við herbergi og önnur rými.
- … skiljum símann eftir heima.
- … munum að klæða okkur eftir veðri og koma í skóm og fötum sem mega verða skítug.
- … verum dugleg að hrósa og brosa. Þá verður allt betra.
-
Hér er að finna upplýsingar um hluti sem gott er að hafa meðferðis svo dvölin verði sem ánægjulegust fyrir alla. Gott er að hafa í huga að koma klædd eftir veðri og koma með föt sem mega verða skítug og gott er að hreyfa sig í. Dagskráin felur í sér ýmis verkefni og leiki, bæði inni og úti.
Það er gott samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og ungmenna að hjálpast að við að pakka niður í tösku. Reynslan hefur kennt okkur að ef ungmenni koma ekki að pökkuninni er oft mjög flókið að finna hluti í töskunni! Jafnframt hvetjum við til þess að merkja vel allar eigur því þannig komast þær miklu frekar til skila ef þær fara á flakk!- Sæng, kodda og sængurver.
- Hlý föt til útivistar, s.s. lopapeysa/flíspeysa, vatnsheldur jakki og buxur, húfa og vettlingar (það er miklu skemmtilegra að vera vel klædd/ur ef kalt er úti).
- Góðir skór til göngu og útivistar, mega vera íþróttaskór eða gönguskór.
- Lítill bakpoki/göngupoki.
- Inniskór eru mjög sniðugir.
- Vatnsbrúsi.
- Þægileg föt, sokkar og nærbuxur til skiptanna.
- Klukku til þess að hafa inni á herberginu – ekki hægt að teysta á símann…
- Náttföt og eyrnatappar (fyrir þá sem þurfa).
- Sundföt og handklæði (sundgleraugu eru sniðug líka)
- Sjampó, hárnæring, sápa og aðrar vörur tengdar hreinlæti (fyrir þá sem vilja).
- Tannbursti og tannkrem.
- Tíðarvörur.
- Bók til að glugga í á kvöldin fyrir svefninn (valfrjálst).
- Einnota myndavél (valfrjálst).
- Pokar undir óhrein föt og skó.
- Nauðsynleg lyf merkt í poka/boxi. Kennara sjá um og gæta lyfja.
- Vasaljós.
- Greiður, skraut og fleira fyrir hárgreiðslu- og förðunarkeppni.
-
Í Skólabúðum UMFÍ er ekki leyfilegt að vera með síma eða önnur raftæki. Lífið í búðunum snýst um samskipti og samveru. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta getur verið krefjandi verkefni fyrir marga – en reynslan sýnir að það svo sannarlega margborgar sig og nemendur njóta sín mun betur. Við endurtökum að símar eru ekki heldur leyfðir ofan í töskum, þó slökkt sé á þeim og búið sé að taka símkort úr þeim.