45. Sambandsráðsfundur 2024
Sambandsráð UMFÍ er æðsta vald í málefnum UMFÍ á milli Sambandsþinga. Sambandsráð er skipað formönnum sambandsaðila UMFÍ eða varamönnum þeirra, ásamt stjórn UMFÍ eða varamönnum hennar.
Stjórn skal boða skriflega til sambandsráðsfundar með a.m.k. 4 vikna fyrirvara og skal hann haldinn fyrir 15. nóvember það ár sem sambandsþing UMFÍ er ekki haldið.
45. Sambandsráðsfundur UMFÍ verður haldinn að Hótel Varmalandi í Borgarfirði laugardaginn 12. október 2024 klukkan 10:00.
Hagnýtar upplýsingar
-
Starfsemi UMFÍ er afmörkuð út frá lögum UMFÍ.
Lög UMFÍ voru uppfærð og samþykkt á 52. Sambandsþingi UMFÍ 2021 á Húsavík.
SKOÐA LÖG UMFÍ -
Samkvæmt 10. grein laga UMFÍ skulu verkefni Sambandsráðsfundar vera:
- Ræða skýrslur næstliðins árs.
- Afgreiða reikninga liðins árs, sem skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda.
- Greiði einhver fulltrúi á sambandsráðsfundi atkvæði gegn því að reikningar séu samþykktir, þá skulu þeir lagðir fyrir næsta Sambandsþing til afgreiðslu.
- Afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs.
- Ræða viðfangsefni UMFÍ milli þinga.
-
UMFÍ býður til kvöldverðar föstudagskvöldið 11. október.
Fundurinn hefst kl. 10:00 laugardaginn 12. október.
10:00 Fundarsetning
- Kosning starfsmanna fundarins: Fundarstjóri / Fundarritari.
Yfirlit yfir störf frá síðasta þingi
- Skýrsla stjórnar
- Reikningar lagðir fram
- Umræður
- Afgreiðsla reikninga
Mál lögð fyrir fundinn
- Fjárhagsáætlun
- Önnur mál frá stjórn
- Erindi og mál frá sambandsaðilum
- Umræður og málum vísað til nefndar
12:30 Hádegishlé
Nefndarstörf
- Nefndir skila áliti, afgreiðsla mála
Kynning og umræður
- Mót UMFÍ
- Íþrótta- og æskulýðslög
- Svæðisstöðvar íþróttahéraða
16:00 Fundarslit
-
TILLAGA NR. 1
FJÁRHAGSÁÆTLUN
45. sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn að Varmalandi 12. október 2024 samþykkir fjárhagsáætlun 2025.
TILLAGA NR. 2
SVÆÐISSTÖÐVAR ÍÞRÓTTAHÉRAÐA
45. sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn að Varmalandi, 12. október 2024, færir ráðherra þakkir fyrir skjót viðbrögð og í framhaldinu stuðning í tengslum við samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ varðandi svæðisstöðvar íþróttahéraða og stofnun hvatasjóðs til þess að styrkja enn frekar áherslur verkefnisins.
Greinargerð: Tillögur voru samþykktar á þingum UMFÍ og ÍSÍ í maí og október 2023. Í desember 2023 var undirritaður samningur við barna- og menntamálaráðuneytið varðandi fjárhagslegan stuðning til verkefnisins í tvö ár og stofnun hvatasjóðs.
TILLAGA NR. 3
STUÐNINGUR VIÐ SKIPULAGT ÍÞRÓTTA OG ÆSKULÝÐSSTARF
45. sambandsráðsfundur UMFÍ haldin að Varmalandi, 12. október 2024, beinir því til stjórnvalda við meðferð fjárlaga að fjárhagslegur stuðningur við UMFÍ og önnur samtök í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hækki í samræmi við verðlagsþróun.
Greinargerð: Fjárlög 2025 hafa verið lög fram. Við skoðun á þeim kemur í ljós að áætluð fjárframlög til þeirra samtaka sem eru með samning við mennta og barnamálaráðuneytið er áætluð óbreytt. Þessar áherslur í fjárlögum eru ekki nýtilkomnar og þegar litið er til síðustu 15 ára þá hefur framlagið breyst örlítið og í engu samræmi við verðlagsþróun. Í raun er um verulegar skerðingar að ræða til allra samtakanna. Niðurstöður íslenskra og erlendra rannsókna sýna ótvírætt fram á ávinning fyrir samfélagið af skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og þess vegna þarf að halda áfram þeim stuðningi. Til þess að ná frekari árangri er nauðsynlegt að bæta við stuðninginn. Sýnt hefur verið fram á að hver króna sem sett er í skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.
TILLAGA NR. 4
ÞRASTASKÓGUR OG ÞRASTALUNDUR
45. sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn að Varmalandi, 12. október 2024 hvetur stjórn UMFÍ til þess að gæta hagsmuna hreyfingarinnar í málefnum er varða Þrastaskóg og Þrastalund.
Greinargerð: Á árinu 2014 var húsnæði Þrastalundar selt en landið sem húsið stendur á er leigt kaupanda hússins. Einnig var gerður rekstrarleigusamningur um tjaldsvæðið í Þrastaskógi.
Á sambandsþingi UMFÍ 2023 var samþykkt að fela stjórn að rifta rekstrarsamningi um tjaldsvæðið og að láta fjarlægja óleyfisframkvæmdir á svæðinu. Í kjölfar þingsins í fyrra hafa samskipti verið töluverð og mat stjórnar að hagsmunum UMFÍ á svæðinu sé mögulega betur borgið með því að bæta samningsstöðu UMFÍ og uppfæra þá samninga sem í gildi eru.TILLAGA NR. 5
ÁFENGISSALA Á ÍÞRÓTTAVIÐBURÐUM
45. sambandsráðsfundur UMFÍ haldin að Varmalandi, 12. október 2024, hvetur aðildarfélög, sem selja áfengi á viðburðum sínum til þess að tryggja aðstæður barna og ungmenna sem mæta á íþróttaviðburði.
Greinargerð: Íþrótta- og ungmennafélög hafa í auknum mæli að undanförnu hafið og/eða aukið sölu á áfengum drykkjum á íþróttaviðburðum sínum. Mikilvægt er að ef félög velja að selja áfengi þá sé slík sala aðskilin frá annarri sölu og þjónustu og að börn og ungmenni sem sæki viðburðina geti gert slíkt örugg og án þess áreitis sem fylgir slíkri sölu.