Reglugerð Unglingalandsmóts UMFÍ
1. Almennt um mótið
1.1 Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð sem haldin skal árlega um verslunarmannahelgina. Kappkosta skal að bjóða keppendum upp á fjölbreyttar íþróttagreinar, þeim og fjölskyldum þeirra upp á góðar aðstæður, heilbrigða afþreyingu og skemmtun við sem flestra hæfi.
1.2 Markmið með mótinu er að ná til sem flestra ungmenna og stuðla að þátttöku þeirra í íþróttum og efla félagslega samkennd þeirra með heiðarleika, tillitssemi og leikgleði að leiðarljósi. Lögð skal áhersla á fjölbreytta dagskrá sem höfði jafnt til keppenda sem og annarra gesta mótsins. Gildi UMFÍ skulu höfð að leiðarljósi á mótinu og áhersla lögð á háttvísi, raunsæi og tillitssemi.
1.3 Mótshaldari skal kappkosta að halda virðingu og hátíðleika á setningu og slitum sem séu miðaðar við unglinga, sem og önnur dagskrá mótsins. Lögð skal áhersla á fjölbreytta dagskrá sem höfði jafnt til keppenda sem og annarra gesta mótsins.
2. Umsókn og undirbúningur
2.1 Stjórn UMFÍ skal árlega auglýsa eftir mótshöldurum meðal sambandsaðila. Tilkynna skal um val á mótsstað á Unglingalandsmóti hverju sinni með að minnsta kosti tveggja ára fyrirvara.
2.2 Í umsókn skal tilgreina drög að þeim íþróttagreinum sem mótshaldari óskar eftir að keppt sé í. Með umsókn skal fylgja samþykki sveitarstjórnar á væntanlegum mótsstað.
2.3. Skipa skal framkvæmdanefnd sem sér um undirbúning og framkvæmd mótsins. Nefndin skal skipuð fulltrúum frá mótshaldara, viðkomandi sveitarfélagi, stjórn og ungmennaráði UMFÍ. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Æskilegt er að fulltrúi ungmenna á mótsstað starfi með nefndinni.
2.4 UMFÍ skal gera skriflega samninga um mótið og framkvæmd þess. Samningsaðilar eru UMFÍ, mótshaldari (sambandsaðili) og viðkomandi sveitarfélag.
2.5 UMFÍ skal, ásamt mótshaldara og viðkomandi sveitarfélagi, vinna sameiginlega að yfirbragði mótanna, m.a. með fjármögnun þeirra og kynningu. UMFÍ leggur til framkvæmdastjóra mótsins og verkefnastjóra á sinn kostnað.
3. Þátttaka og skráning
3.1 Unglingalandsmót UMFÍ skal fara fram um verslunarmannahelgi ár hvert. Mótið skal standa í þrjá til fjóra daga Mótið skal sett á föstudagskvöldi og því slitið á sunnudegi.
3.2 Rétt til þátttöku eiga öll ungmenni á aldrinum 11–18 ára á almanaksárinu.
3.3 Skráningu lýkur um miðnætti síðasta sunnudag fyrir mót. Framkvæmdanefnd hefur heimild til að lengja skráningarfrest í greinum ef hún telur þörf á.
4. Þátttökugjald
4.1 Þátttökugjald skal ákveðið af stjórn UMFÍ ásamt mótshaldara hverju sinni.
4.2 Mótsgögn eru einungis afhent þeim sem greitt hafa skráningargjaldið.
5. Um mótið
5.1 Kappkosta skal að bjóða öllum keppnisgreinum upp á sem bestar aðstæður til keppni og leitast við að bjóða keppendum og gestum þeirra upp á sem besta aðstöðu til dvalar og afþreyingar á mótinu.
5.2 Mótshaldari ber ábyrgð á að útvega starfsfólk/sjálfboðaliða við allar keppnisgreinar og viðburði mótsins.
5.3 Sambandsaðilar eru hvött til að tilnefna tengilið sem framkvæmdanefnd getur sett sig í samband við.
5.4 Mótshaldari skal sjá um ytri gæslu á tjaldsvæðum þátttakenda og jafnframt setja reglur um umgengni.
5.4 Íþróttaleikar fyrir börn 10 ára og yngri skulu vera hluti af afþreyingardagskrá mótsins þar sem allir fá viðurkenningu fyrir þátttöku án þess að um keppni sé að ræða.
6. Íþróttakeppnin
6.1 Keppnisgreinar skulu vera fjölbreyttar og höfða til sem flestra. Ætíð skal keppt í glímu, frjálsíþróttum, knattspyrnu, körfubolta og sundi.
6.2 Mótshaldari skal sjá til þess að keppnisaðstaða í öllum keppnisgreinum taki mið af reglum sérsambanda. Mótshaldari skal tilkynna endanlegar keppnisgreinar eigi síðar en 1. maí.
6.3 Keppt skal eftir leikreglum og aldursflokkaskiptingu viðkomandi sérsambands. Unglingalandsmótsnefnd er þó heimilt að breyta aldursskiptingu, keppnisreglum og kröfum um aðstöðu gerist þess þörf og skal það tilkynnt áður en keppni hefst samanber grein 3.2.
6.4 Endanleg tímasetning keppnisgreina skal liggja fyrir kvöldið fyrir mótsbyrjun. Skipulag keppnisgreina skal liggja fyrir eigi síðar en kvöldið fyrir keppni.
6.5 Þrír fyrstu í hverri einstaklingsgrein hljóta verðlaun svo og einstaklingar í þremur fyrstu liðunum í flokkakeppni.
6.6 Keppendur geta aðeins keppt með einu liði í hverri íþróttagrein á mótinu. Ef keppandi verður uppvís að leika með öðru liði en sínu skal lið það sem hann lék ólöglega með tapa viðkomandi viðureign og getur ekki unnið til verðlauna.
7. Fyrirmyndarbikar Unglingalandsmóts UMFÍ
7.1 Fyrirmyndabikar Unglingalandsmóts UMFÍ er afhentur á mótsslitum til þess íþróttahéraðs sem hefur sýnt fyrirmyndarframkomu á mótinu, innan sem utan keppnisvallar.
7.2 Mótshaldari skipar þriggja manna dómnefnd sem velja skal það íþróttahérað sem hlýtur bikarinn og skal UMFÍ tilnefnda einn fulltrúa í dómnefnd.
7.3 Sérstök reglugerð er um Fyrirmyndabikarinn sem segir til um hvað fyrirmyndafélagið þarf að uppfylla til að hljóta bikarinn.
8. Um fundi, kærur o.fl.
8.1 Áður en keppni hefst skal stjórn UMFÍ skipa þriggja manna dómnefnd, Nefndin skal fjalla um öll deilumál sem upp koma fyrir keppni eða í keppninni og dæma í þeim samkvæmt reglugerð þessari og ef við á, leikreglum viðkomandi sérsambands. Kærur skulu vera skriflegar og berast mótsstjórn eigi síðar en einni klukkustund eftir lok þeirrar keppni sem kæra á. Kærur skulu undirritaðar af forsvarsmanni viðkomandi keppnisliðs eða einstaklings. Úrskurði dómnefndar verður ekki áfrýjað.
9. Annað
Breytingar á reglugerð þessari skulu samþykktar af stjórn UMFÍ.
10. Grein
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt eldri reglugerðir mótsins úr gildi fallnar.
Samþykkt á 50. sambandsþingi UMFÍ 2017 á Hallormsstað.
Uppfært á stjórnarfundi UMFÍ hinn 17. febrúar 2023.