Fara á efnissvæði
08. júní 2024

Áhorfendur átu verðlaunakökurnar

Áhorfendur gengu á lyktina í keppni í pönnukökubakstri á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fer í Vogum á Vatnsleysuströnd um helgina. Í keppninni  var dæmt eftir hraða, fjölda pönnukaka, leikni, útliti, bragðgæðum og fleiri þáttum. 

Fjórir eldhressir matgæðingar kepptu um bestu pönnukökuna og valdi hver keppandi sjálfur uppskriftina. Keppendur fengu þurrefni og áhöld á staðnum en þurftu að koma með eigin pönnukökupönnur og spaða. 

Skilyrði var að skila tíu upprúlluðum pönnukökum með sykri en öðrum tvíbrotnum í horn. Pönnukökunum var skilað á kökufati. Dómnefnd var lengi að ákveða sig og áhorfendur því orðnir óþreyjufullir og glorsoltnir.

Af þeim sökum tóku nokkrir keppendur sig til og smelltu í nokkrar ferskar pönnukökur sem lögð voru á borð fyrir áhorfendur. Þegar dómnefnd kvað svo upp úrskurð sinn reyndist Eygló Alexandersdóttir  pönnukökumeistari mótsins. Eygló er góðkunningi Landsmóts UMFÍ 50+. Hún hefur tekið þátt í því um áraraðir og keppt í mörgum greinum, þar á meðal í pönnukökubakstri.

Þegar það lá fyrir voru pönnukökur allra keppenda lagðar á borð og fengu áhorfendur loks að smakka á öllum kræsingunum.