Fara á efnissvæði
31. maí 2024

Lærði að taka ábyrgð á eigin heilsu

„Mikilvægt er að bæjarfélög bjóði upp á íþróttir fyrir eldri borgara,“ segir Jóna Einarsdóttir, sem æfir reglulega með um 50 eldri borgurum í Hveragerði.

„Bæjarfélög þurfa að vera dugleg að styrkja íþróttir eldri borgara. Það er nauðsynlegt í öllum bæjarfélögum,“ segir Jóna Einarsdóttir, íbúi í Hveragerði og einn af elstu þátttakendunum á æfingum eldri borgara hjá Hamri. 

Jóna hefur lengi tekið þátt í íþróttastarfi eldri borgara í Hveragerði. Hún vann á árum áður á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands og stofnaði þar gönguhóp, sem enn er á gangi og heldur úti gönguferðum í hverri viku. 

Hún segir einkunnarorð Náttúrulækningafélagsins til fyrirmyndar: 

„Þar lærði ég að fólk á að taka ábyrgð á eigin heilsu. Ef maður nennir ekki að hugsa um hana sjálfur gerir enginn það fyrir mann,“ segir hún og rifjar upp að íþróttaæfingar fyrir fólk 60 ára og eldra hafi byrjað í Hveragerði þegar íþróttafræðingurinn Jónína Benediktsdóttir flutti í bæinn fyrir tæpum tíu árum, en hún spann saman heilsueflingu í samstarfi Félags eldri borgara í Hveragerði og Hveragerðisbæ í Hamarshöllinni. Æft var tvisvar í viku. Jónína lést fyrir aldur fram árið 2020 og Hamarshöllin fauk af grunni sínum tveimur árum síðar. 
Jóna segir verðmætt að boðið sé upp á heilsueflingu eldri borgara í Hveragerði og ætti slíkt að vera í boði sem víðast: 

„Það er nauðsynlegt að bjóða heilsueflingu eldri fólks í öllum bæjarfélögum. Ef það er ekki í boði þarf að gera það og virkja fólkið til þátttöku,“ segir Jóna.

 

Heilsuefling fyrir 60+ í Hveragerði

Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði tók við starfsemi líkamsræktarstöðvarinnar CrossFit Hengill í Hveragerði haustið 2023. Starfsemi Crossfit Hengils var vinsæl og rekin við góðan orðstír. Þar hafði skapast sterkt samfélag í miðjum bænum fyrir fólk á öllum aldri, sem hittist til að efla líkama og sál.

Fjallað er um íþróttafélagið í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ og rætt þar við Guðjónu Björk Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Hamars. 

Guðjóna tók í mars við starfi framkvæmdastjóra Íþróttafélagsins Hamars. Hún þekkir vel til starfs félagsins, enda hafði hún verið gjaldkeri aðalstjórnar Hamars undanfarin tvö ár. Auk starfstitilsins er Guðjóna viðskiptafræðingur og með MA-gráðu í stjórnun. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á þessari starfsemi,“ segir Guðjóna. 

Þegar eigendur Crossfit Hengils tóku þá ákvörðun að hætta rekstri varð til hugmynd hjá Hamri um að nýta húsnæðið, sem er í eigu Hveragerðisbæjar, og kaupa búnaðinn af Crossfit Hengli. 

„Hamar hefur verulega vantað húsnæði upp á síðkastið og hefur í raun síðastliðin tvö ár verið í vandræðum eftir að Hamarshöllin fauk. Ekkert bólar enn á nýju húsnæði,“ segir Guðjóna og bendir á að félagið hafi lengi haft áhuga á að stækka hlut almenningsíþrótta undir merkjum félagsins. 

„Okkur fannst þetta verulega gott tækifæri, sem myndi gera okkur kleift að bjóða upp á almenna líkamsrækt fyrir iðkendur í Hveragerði, fyrir mömmur, unglinga og nú síðast eldri borgara, sem hafa bæst í hópinn,“ segir Guðjóna. 

Hamar hefur lagt mikinn metnað í þessa deild og langar til að bæta fleira við, til dæmis hlaupahópi, að hennar sögn. Það var svo í október árið 2023 sem bæjarstjórnin í Hveragerði samþykkti hugmynd Hamars um nýtingu á húsnæðinu. 

Um síðustu áramót tóku Hamarsliðar við lyklunum og til varð Hamarsport. 

Starfsemin í Hamarsporti og stofnun almennrar deildar hefur gengið mjög vel þessa fyrstu mánuði ársins að sögn Guðjónu. 

„Um 120 iðkendur hafa verið í líkamsræktinni ásamt iðkendum í Mömmusporti og Unglingasporti. Deildir Hamars eru byrjaðar að nýta sér salinn, til dæmis knattspyrnan, blakið, körfuboltinn og ný lyftingadeild innan Hamars sem er byrjuð að bjóða upp á lyftingar þrisvar sinnum í viku. Einnig hafa afreksmenn nýtt sér aðstöðuna,“ segir Guðjóna.

 

Eldri borgarar slást í hópinn

Nýverið hafa eldri borgarar slegist í hópinn hjá Hamri og mætt á skipulagðar æfingar þrisvar í viku í Hamarsport.

Yfir 50 eldri borgarar hafa nýtt sér þjónustuna og árangurinn verið ótrúlega góður. 

„Áður fyrr hafa eldri borgarar í Hveragerði verið á hálfgerðum hrakhólum vegna aðstöðuleysis en vonandi eru þeir komnir á góðan stað þar til nýtt íþróttahús kemur. Það er því óhætt að segja að mikið líf sé í húsinu,“ bætir Guðjóna við. 

Rakel Hlynsdóttir, þjálfari í Hamarsporti, hefur haldið utan um líkamsræktina fyrir eldri borgarana, en áður voru þeir undir leiðsögn Berglindar Elíasdóttur. 

„Rakel er algjör snillingur og á auðvelt með að vinna með þessum hópi. Hún setur upp æfingar fyrir þau og það er mikið að gerast í hverjum tíma. Það eru meðal annars notuð hjól, róðrarvélar, skokk, lóð og eigin líkamsþyngd,“ segir Guðjóna og bætir við að eldri borgararnir séu mikilvægur hluti af iðkendum Hamars, en æfingarnar hafi gefist mjög vel og það sé alltaf létt á hjalla í þessum hópi. 

„Við í Hamri erum ótrúlega glöð og þakklát fyrir þessa aðstöðu. Ég lít líka ekki bara á þetta sem líkamsræktarstöð heldur einnig sem félagsmiðstöð iðkenda Hamars þar sem fólk hittist og nýtur félagsskapar hvert annars. Sá þáttur er kannski oft vanmetinn en hefur svo mikil áhrif, þáttur sem býr til langlífi,“ segir Guðjóna.

Lesa meira í Skinfaxa

Rætt er við Jónu og fjallað um Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

Á meðal efnis í blaðinu:

  • Kraftur í heilsueflingu eldra fólks
  • Hamar býður upp á líkamsrækt í Hamarsporti
  • Landsmótið á Laugarvatni í lit
  • Fjörug í fimleikum
  • Borgin lyftir upp lýðheilsustarfi eldri borgara
  • Verðmæti í heilsueflingu 60+
  • Hvetur eldra fólk til að hreyfa sig
  • Mikil ásókn í boccia á Landsmóti UMFÍ 50+
  • Mikilvæg störf í hreyfingunni

Auk þess er miklu meira efni um allt það fjöruga og góða starf sem unnið er að innan íþrótta- og ungmennaféalgshreyfingarinnar.

Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og lesið allt blaðið og viðtölin sömuleiðis.

Hugrún prýðir forsíðuna og tók ljósmyndarinn Hulda Margrét myndirnar af henni.

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa