Fara á efnissvæði
19. júní 2024

Landsmótið á Laugarvatni í lit

Það er alltaf gaman að sjá hvernig fortíðin leit út í lit og hafa margar tilraunir verið gerðar til þess að sjá hvernig lífið leit út á árum áður. Kári Jónasson stóð í tiltekt heima hjá sér fyrir nokkru. Upp úr gömlum kössum komu litmyndir sem hann tók á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni árið 1965.

Landsmót UMFÍ var haldið í fyrsta sinn árið 1909 og voru um áratugaskeið fastur liður á dagskrá ungmennafélaga landsins. Mótin voru haldin með nokkurra ára millibili og þegar mótið var haldið á Laugarvatni sumarið 1965 var það í tólfta skiptið. Það var haldið á hásumri, dagana 3.–4. júlí. Fólk var strax byrjað að streyma á Laugarvatn á föstudagskvöldinu til að vera klárt í keppni, en mótið hófst formlega strax daginn eftir. Landsmótið á Laugarvatni varð gríðarlega vinsælt, enda veðrið gott og voru þegar mest var á svæðinu 20–25 þúsund gestir. 

 

Myndir í lit frá mótinu 1965 

Kári Jónasson var á þessum tíma blaðamaður og kom á landsmótið sem ljósmyndari á Tímanum. Litmyndir voru ekki algengar á þessum tíma og veltir hann sjálfur fyrir sér ástæðum þess að slík filma var í vélinni. „Líklegast hef ég verið að klára filmu í lit þegar þessar myndir voru teknar og fært mig svo yfir í svarthvíta filmu út mótið,“ segir Kári, en eðli málsins samkvæmt á UMFÍ engar myndir frá mótinu í lit. Myndir Kára eru þær einu sem til eru. 

 

Hitinn ógurlegi

Það stefndi reyndar ekki í neitt sérstakt mót. Dagana fyrir það var hellirigning á svæðinu. Vatn var á hlaupabrautum og menn almennt orðnir áhyggjufullir um hvernig til tækist ef ekki myndi stytta upp. Meira að segja föstudagurinn lofaði ekki góðu. 

En svo rann upp þess fallegi og sólríki laugardagur 3. júlí. Forráðamenn mótsins önduðu því léttar eftir áhyggjur dagana á undan. En Adam var ekki lengi í paradís, því sólin og hitinn sem henni fylgdi áttu eftir að trufla nokkra keppendur og mótsgesti, sem ekki höfðu varið sig vel eða haft viðeigandi klæðnað með á mótið. Hitinn og sólskinið áttu eftir að verða svo mikil þessa helgi að sumir keppendur og aðrir skaðbrenndust. 
„Fjöldi manna leitaði læknis vegna hitans,“ bætir Kári við. 

Það sem situr efst í minni Kára frá mótinu er að sjálfsögðu þessi ógurlegi hiti, fjölmennið á mótinu og eftirminnilegir einstaklingar sem voru á staðnum. 

„Ég man best eftir því þegar Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi ríkisins, var að stjórna hópgöngu inn á svæðið. Hann var röskur að raða saman fólki og notaði gjallarhorn þegar hann raðaði fulltrúum héraðssambanda saman og á rétta staði,“ heldur Kári áfram. 

Eftir glæsilega göngu héraðssambanda inn á nýjan leikvang á Laugarvatni undir sínum félagsfána tóku merkir menn til máls. Síðastur til máls var Eiríkur J. Eiríksson, formaður UMFÍ, sem flutti setningarræðu mótsins. 
„Eiríkur var ekki hár vexti en talaði þeim mun hærra og skýrara og bókstaflega hrópaði yfir allt þegar hann hélt setningarræðuna,“ segir Kári og segir það hafa verið eftirminnilega ræðu. 

Í kjölfar setningar gengu þátttakendur skipulega af leikvellinum og hið glæsilegasta íþróttamót og það stærsta á landsvísu á þessum tíma átti sér stað. 

Það er alltaf áhugavert að rýna í myndir frá starfi UMFÍ í gegnum árin og gaman að áskotnast einstakar myndir í lit frá árinu 1965.

 

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af Jónasi og myndir sem hann tók af Landsmótinu á Laugarvatni sumarið 1965. 

Lumarðu á eftirtektarverðum minningum eða áttu myndir eða upptökur frá gömlum mótum? Við höfum alltaf gaman af því að sjá og heyra af þeim. Þú getur sent okkur póst um málið með minningunum á umfi@umfi.is.

Rætt er við Kára Jónasson í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þema blaðsins er heilsuefling 60 ára og eldri. En svo er eins og alltaf fjölmargt annað lesefni í blaðinu.  

LESA MEIRA Í SKINFAXA

Á meðal efnis í blaðinu:

  • Kraftur í heilsueflingu eldra fólks
  • Hamar býður upp á líkamsrækt í Hamarsporti
  • Landsmótið á Laugarvatni í lit
  • Fjörug í fimleikum
  • Borgin lyftir upp lýðheilsustarfi eldri borgara
  • Verðmæti í heilsueflingu 60+
  • Hvetur eldra fólk til að hreyfa sig
  • Mikil ásókn í boccia á Landsmóti UMFÍ 50+
  • Mikilvæg störf í hreyfingunni

Auk þess er miklu meira efni um allt það fjöruga og góða starf sem unnið er að innan íþrótta- og ungmennaféalgshreyfingarinnar.

Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og lesið allt blaðið og viðtölin sömuleiðis.

Lesa nýjasta tölublað Skinfaxa