Mikil ásókn í boccia
Petra Ruth, formaður Þróttar Vogum, segir mikla stemningu fyrir Landsmóti UMFÍ 50+. Mikil ásókn er í boccia. Íþróttahúsið rúmar aðeins 32 lið og þurfti að fjölga mótsdögum.
Áhugasamir hafa til klukkan 16:00 í dag til að skrá sig í keppnisgreinar. Opið er í fjölmargar greinar á mótinu, sem þarf ekki að skrá sig í.
Nóg verður um að vera þegar Landsmót UMFÍ 50+ fer fram í fyrsta sinn í Vogum á Vatnsleysuströnd í byrjun júní. Eins og á fyrri mótum er gert ráð fyrir miklum fjölda í ringó og boccia. Vegna þess hversu mjög boccia hefur sprungið út var ákveðið að bæta aukadegi við mótið. Íþróttahúsið í Vogum rúmar einfaldlega ekki allan fjöldann sem væntanlegur er í boccia og þarf keppni því að fara fram á tveimur dögum.
„Við fáum mikið af fyrirspurnum um boccia. Eldri borgarar hér hafa stundað boccia yfir veturinn auk þess sem aukaæfingar hafa verið hjá félaginu til að kynna greinina og undirbúa fólk fyrir landsmótið. Eitt lið fór á Landsmót UMFÍ 50+ í Stykkishólmi í fyrra og lærði mikið af því,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar Vogum, sem heldur mótið í ár. Á meðal þess sem hópurinn lærði í Stykkishólmi er að hver keppnishópur kemur með sitt eigið boccia-sett og tekur þátt í dómgæslu.
Petra segir boccia-liðin þurfa að vera snögg að skrá sig vegna þess að aðeins verður hægt að skrá 32 boccia-lið til leiks. Íþróttahúsið í Vogum einfaldlega rúmi aðeins fjóra velli og því þurfi að skipta keppninni upp. Mikil ásókn í boccia Petra Ruth, formaður Þróttar Vogum, segir mikla stemningu fyrir Landsmóti UMFÍ 50+. Mikil ásókn er í boccia. Íþróttahúsið rúmar aðeins 32 lið og þurfti að fjölga mótsdögum.
Götubitar og heimatónleikar
Petra býst við mikilli stemningu á mótinu. Opið verði í fjölda greina og meira að segja verði greinar í boði sem börn geta spreytt sig á. Fólk geti komið og prófað greinar sem það hafi dreymt um í gegnum árin. Matarvagnar verða líka á svæðinu og skellt verður í heimatónleika víða um bæinn. Matar- og skemmtikvöldið verður á sínum stað og gulltryggt að gaman verði á mótinu.
Brennibolti og pönnukökur
Til að koma öllum í mótsgírinn í Vogum var haldinn íbúafundur í bænum í byrjun sumars. Þar sat Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, fyrir svörum og skýrði jafnframt eitt og annað varðandi mótahaldið. Það leiddi til þess að fólk bauð sig fram sem sjálfboðaliðar á mótinu.
Þróttarar hafa vandað vel til verka og bjóða upp á úrval greina, bæði til að keppa í og sem fólk getur prófað. Yfir tuttugu greinar eru í boði. Þar á meðal eru brennibolti, petanque, sem sló í gegn á mótinu í Stykkishólmi í fyrra, og kasína, sem er vinsæl á meðal Grindvíkinga. Þetta verður sérstaklega spennandi grein því sérgreinastjórinn hefur stýrt heimsmeistaramóti í kasínu.
Gamlar byggingar og annað forvitnilegt
Petra segir Þróttara og UMFÍ hafa kappkostað að mótsgestir njóti helgarinnar. Auk matarvagna og götuveislustemningar geti gestir skoðað ýmislegt í bænum, svo sem gamla safnaðarheimilið Kirkjuhvol, sem Ungmennafélagið byggði ásamt Kvenfélaginu í Vogum. Þar voru haldin dansiböll í gamla daga og komu þangað gestir fótgangandi frá Grindavík. Verið er að endurbyggja húsið og verður hægt að fylgjast með framkvæmdum. Sömuleiðis verður hægt að skoða fleira gamalt og gott sem búið er að gera upp, þar á meðal gamla hlöðu og skólahús. Þeir gestir sem vilja bregða undir sig betri fætinum geta skellt sér í góðan göngutúr frá Vogum að útivistarsvæðinu Háabjalla.
„Við erum að gera göngukort af leiðinni og það verður – eins og fleira – tilbúið fyrir mótið,“ segir Petra.
Lesa meira í Skinfaxa
Rætt er við Petru í Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Á meðal efnis í blaðinu:
- Kraftur í heilsueflingu eldra fólks
- Hamar býður upp á líkamsrækt í Hamarsporti
- Landsmótið á Laugarvatni í lit
- Fjörug í fimleikum
- Borgin lyftir upp lýðheilsustarfi eldri borgara
- Verðmæti í heilsueflingu 60+
- Hvetur eldra fólk til að hreyfa sig
- Mikil ásókn í boccia á Landsmóti UMFÍ 50+
- Mikilvæg störf í hreyfingunni
Auk þess er miklu meira efni um allt það fjöruga og góða starf sem unnið er að innan íþrótta- og ungmennaféalgshreyfingarinnar.
Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og lesið allt blaðið og viðtölin sömuleiðis.