Mótaskrá ULM 2024
Mótsskrá Unglingalandsmóts UMFÍ er komin út. Þetta er skráin sem þátttakendur og gestir Unglingalandsmótsins geta haft gagn af að hafa í vasanum og símanum á meðan móti stendur. Í mótsskránni er dagskrá mótsins, upplýsingar um alla afþreyingu, opnar greinar sem ekki þarf að skrá sig í og alla þá viðburði sem boðið er upp á.
Þátttakendur fá prentaða útgáfu mótaskrárinnar afhenta í þjónustumiðstöð Unglingalandsmótsins í Menntaskóla Borgarfjarðar. Miðstöðin opnar á fimmtudag klukkan 15:00 og verður hún opin á meðan mótinu stendur.
UMFÍ heldur mótið ásamt Ungmennasambandi Borgarfjarðar (UMSB) og sveitarfélaginu Borgarbyggð.
Í mótaskránni rifjar Hallbera Eiríksdóttir upp þegar hún hlustaði á lagið Farin með Skítamóral með vinkonum sínum í skólastofu á Unglingalandsmóti árið 1998. Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, býður gesti velkomna í Borgarnes og Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), segir frá mótum UMFÍ á svæðinu.
Í mótaskránni er líka dagskrá mótsins, kort af mótssvæðinu, ýmislegt um keppnisgreinar, afþreyingu og margt fleira.