Umf Reykdæla: Fjölbreytt framboð íþróttastarfs
Starfið hjá minni ungmenna- og íþróttafélögum byggir á einstaklingsframtaki, vilja, drifkrafti og góðum þjálfurum, segir Helgi Eyleifur Þorvaldsson.
„Við höfum verið ótrúlega heppin með þjálfara hjá okkur, enda er það uppistaðan í góðu íþróttastarfi,“ segir Helgi Eyleifur Þorvaldsson, formaður íþróttanefndar Ungmennafélags Reykdæla (UMFR), sem er aðildarfélag Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB).
Ungmennafélagið var stofnað árið 1908 og var fyrsta ungmennafélagið í Borgarfirði.
Helgi Eyleifur er alinn upp í Reykholtsdal og þekkir starfið þar vel. „Í grunninn er Ungmennafélag Reykdæla gamaldags ungmennafélag, við erum sem dæmi ekki enn komin með heimasíðu,“ segir Helgi, en tímatafla ungmennafélagsins er aðgengileg á heimasíðu UMSB sem félagið nýtir sér ásamt Facebook-hópi fyrir upplýsingar og myndir.
„Í gegnum tíðina hefur félagið meðal annars starfrækt leikstarf, skógrækt, framkomu og ræðumennsku en það hefur dofnað aðeins yfir því. Íþróttastarfið hefur verið á ágætu róli í áratugi en við tókum þá ákvörðun nýlega að fara á fullt í íþróttastarfið, meðal annars fyrir ungt fólk og fjölskyldur þess sem vilja setjast hér að,“ segir Helgi.
Fjölbreytt tímatafla Umf. Reykdæla
Íþróttaæfingar á vegum ungmennafélagsins vorið 2024 eru fjölbreyttar og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í boði eru körfubolti, sund, fimleikar, blak og badminton. Alla æfingar fara fram í íþróttahúsinu á Kleppjárnsreykjum, en þar er íþróttasalur í hálfri stærð og 25 metra sundlaug. Æfingarnar eru opnar fyrir hvern sem er á svæðinu og hafa iðkendur komið hvaðanæva úr Borgarfirði á æfingar.
Íþróttahúsið er við Grunnskólann á Kleppjárnsreykjum. Í grunnskólanum eru nemendur í 1.–10. bekk og koma þeir úr Skorradal, Bæjarsveit, Lundarreykjadal, Flókadal, Reykholtsdal, Hálsasveit og Hvítársíðu.
Í ár hafa verið um það bil áttatíu iðkendur í fjölbreyttu framboði íþróttagreina hjá UMFR og um 120 skráningar þar sem iðkendur eru skráðir í fleiri en eina íþrótt. Þetta er töluverð fjölgun á milli ára en skráningar hafa gjarnan verið á bilinu 50–60 og er því um tvöföldun að ræða.
„Markmiðið hjá okkur núna er að fá fleiri skráningar í ungmennafélagið,“ segir Helgi.
Komið til móts við foreldra
Síðasta vetur ákvað íþróttanefnd að festa kaup á 30 körfuboltabúningum í mismunandi stærðum sem henta á allan iðkendahópinn.
„Flyover Iceland og Hraunfossar Restaurant & Café greiddu fyrir búningana að mestu leyti. Við erum ótrúlega þakklát fyrir það, þetta hefði ekki verið hægt nema fyrir þennan ómetanlega stuðning bakhjarla,“ segir Helgi en hugmyndin með framtakinu er að losa foreldra undan því að kaupa reglulega nýja búninga með stækkandi börnum og tilheyrandi kostnaði. Hugsað er sameiginlega um búningana.
„Við höfum fengið mörg þakklætisskilaboð frá foreldrum eftir þetta framtak, en ég veit vel hversu þungur kostnaður það getur verið að hafa börn í íþróttastarfi,“ bætir Helgi við.
Ráð fyrir lítil ungmennafélög
Helgi bendir á að starfið hjá Reykdælum byggi að stórum hluta á einstaklingsframtaki, vilja, drifkrafti og að sjálfsögðu góðum þjálfurum.
„Það gerist ekki neitt nema hafa metnaðarfulla þjálfara með,“ segir Helgi og bætir því aftur við hversu heppin þau hafi verið með framboð þjálfara á svæðinu. Helgi segir það einnig gott ráð að hafa íþróttamál ungmennafélaga á sér reikningi. Það gefur nánari mynd af starfinu að hafa íþróttamál aðskilin frá öðrum störfum félagsins.
„Þegar iðkendum fjölgar hratt fara greinarnar að standa undir sér og það gefur möguleika á að auka framboðið,“ bætir hann við.
Ungmennafélagið hefur undanfarið verið duglegt að efla iðkendur sína í starfi og umbuna þeim. Til dæmis fengu allir iðkendur bol merktan ungmennafélaginu nýverið. „Þetta er gert til þess að hvetja iðkendur til að halda áfram æfingum hjá félaginu, þakka fyrir gott starf og vekja athygli á ungmennafélaginu, það eru ekki endilega allir meðvitaðir um hvað það er nákvæmlega,“ bætir Helgi við og segir að lokum: „Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.“
Fáir þjálfarar halda starfinu uppi
Körfubolti
Þessi mikla fjölbreytni er nýleg hjá ungmennafélaginu en körfubolti og sund hafa þó verið í boði hjá félaginu lengur.
„Guðjón Guðmundsson hefur kennt hér í meira en 35 ár, sjálfur er ég 35 ára,“ segir Helgi Eyleifur Þorvaldsson á léttum nótum. Guðjón hefur séð um körfuboltann og sundið í gegnum tíðina og lengi vel fótbolta á sumrin. Nú hefur bæst í hópinn þjálfarinn Þórir Örn Hafsteinsson, sem hefur stýrt körfuboltaæfingum fyrir yngri iðkendur. Körfunni er skipt upp í 4.–6. bekk og 7.–10. bekk. Báðir hópar hafa verið að keppa á Íslandsmótum undir leiðsögn Guðjóns og Þóris.
Sund
Í sundinu er boðið upp á æfingar fyrir 1.–4. bekk og 5.–10. bekk undir leiðsögn Guðjóns, sem hefur farið með iðkendurna á sundmót ásamt því að haldin eru sundmót á Kleppjárnsreykjum á vorin. Ásamt sundæfingum í umsjón Guðjóns býður Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir upp á sundnámskeið fyrir 4–5 ára gömul börn á sumrin.
Síðasta sumar var námskeiðinu skipt upp í tvennt. „Námskeiðið var vinsælt og heppnaðist vel, svo að Ingibjörg bauð upp á 10 vikna framhaldsnámskeið fyrir eldri hópinn fram á haustið,“ segir Helgi.
Fimleikar
Fimleikar hófust á Kleppjárnsreykjum í vetur í samstarfi við fimleikadeild ÍA. „Við erum ÍA afar þakklát fyrir samstarfið og þá frábæru þjálfara sem sjá um fimleikastarfið þar. Við byrjuðum með 10 vikna námskeið, það var uppselt á það fljótt svo að það var framlengt út veturinn. Þar erum við með hátt í 50 iðkendur í þremur hópum úr öllum Borgarfirði, mikið úr Varmalandi, Hvanneyri og frá Bifröst til dæmis,“ segir Helgi. Stærð íþróttahússins býður upp á 20 iðkendur að hámarki í hópi í fimleikum og eru hóparnir þrír, skipt upp eftir aldri.
Blak
„Fyrir tveimur vetrum var byrjað að bjóða upp á blakæfingar við góðar undirtektir,“ segir Helgi og bætir við að mikil blakmenning sé í Borgarfirði. „Krakkarnir eru búnir að fylgjast með foreldrum sínum í blaki og er áhugi þeirra á íþróttinni mikill,“ segir Helgi.
Badminton
„Badminton bættist við hjá okkur um áramótin síðustu, en það var sveitungi okkar, Guðmundur Freyr Kristbergsson, sem hefur stundað badminton alla sína æsku, sem bauðst til að prófa að þjálfa.
Badmintonsambandið aðstoðaði okkur í upphafi við að verða okkur úti um búnað og erum við þakklát fyrir þá aðstoð,“ segir Helgi. Áhuginn á íþróttinni hefur verið mikill og seldist upp á námskeiðið strax.
Lesa meira í Skinfaxa
Fjallað er um Ungmennafélag Reykdæla í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á hlekkinn hér að neðan og myndina af forsíðu blaðsins og lesið allt blaðið á netinu.