Fara á efnissvæði

Unglingalandsmót

Almennar upplýsingar

Almennar upplýsingar

Velkomin á Unglingalandsmót

Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram reglulega frá 1992 og árlega frá 2002 um verslunarmannahelgina. Mótið er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

 

Mótsgjald

Þátttökugjald er 9.400 kr. Innifalið í því er þátttaka í öllum keppnisgreinum mótsins, viðburðum og aðgangur að sundlaugum Bogarbyggðar. Einnig er innifalinn aðgangur að tjaldsvæðið mótsins.

Á Unglingalandsmóti UMFÍ keppa þátttakendur undir nöfnum íþróttahéraða landsins. Sambandsaðilar UMFÍ styrkja sumir þátttakendur á sínu svæði að hluta eða öllu leyti. Aðrir veita þátttakendum á sínu svæði ýmsan varning til viðbótar, svo sem peysur eða boli merkta sambandsaðilanum. Þess vegna er mikilvægt að velja rétt íþróttahérað við skráningu.

Ef þú ert ekki viss um hvaða íþróttahéraði þú tilheyrir, er hægt að sjá nánari upplýsingar hér

 

Búið til ykkar lið

Þátttakendur í greinum þar sem keppt er í liðakeppni geta búið til sín eigin lið í skráningarkerfinu. Þátttakendur þurfa ekki að vera frá sama sambandsaðila eða sama félagi heldur getur hver sem er sett saman sitt eigið lið.

Ekki er hægt að ganga frá skráningu á heilu liði, hver og einn þarf að ganga frá sinni skráningu. Aðeins einn (sá sem er fyrstur að skrá) þarf að stofna nafn á liði. Þegar búið er að stofna nafn á liði geta aðrir þátttakendur valið það nafn. 

Þeir þátttakendur sem ekki eru í liði eða í hópi sem ekki nær að mynda lið verður raðað í lið með öðrum þátttakendum. Heppilegast er að skrifa "vantar lið" í liðsnafn. 

Margir búa til skemmtileg nöfn á liðin sín. Nöfn eins og Bónusgrísirnir, Bakkabræður, Rothöggið og svo má lengi telja. 

Eins hafa mörg lið búið til sína eigin búninga. Það er auðvitað engin krafa frá mótshöldurum en gefur mótinu lit og liðunum sjálfum sérstaklega skemmtilegan blæ.

Mótssvæði

Í Borgarnesi er góð íþróttaaðstaða og staðurinn því kjörinn til að halda Unglingalandsmót. Aðal mótssvæðið er í hjarta bæjarins og þar munu flestar greinar fara fram. Frjálsíþróttavöllur, knattspyrnuvellir, íþróttahús fyrir körfuboltann og sundlaug er meðal þess sem þar er staðsett. 

Íþróttir

Mikill fjöldi íþróttagreina verður í boði, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Keppni fer fram í mörgum þeirra en einnig verða ákveðnar greinar sem ekki verður formlega keppt í en allir geta prófað. Einnig verða ákveðnar greinar opnar fyrir alla fjölskylduna og þá skiptir aldurinn engu máli.

Helstu greinar sem í boði eru: badminton, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, glíma, golf, grasblak, grashandbolti, hestaíþróttir, hjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, pílukast, skák, stafsetning, sund og upplestur. 

Keppnisfyrirkomulag

Í flestum greinum verður keppnisfyrirkomulagði hefðbundið.

Við vinnum að breytingum á nokkrum stórum greinum. Körfubolti verður sem dæmi spilaður einn dag og það sama verður með knattspyrnu og nokkrar greinar til viðbótar. Þetta auðveldar öllum að skipuleggja sig og taka þátt í fleiri greinum. Minna stress verður þegar hlaupið er á milli greina, sem skarast síður, og meira fjör verður á mótsstað. 

Afþreying

Mótssvæðið verður iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Við segjum, Íþróttir á daginn og tónlist á kvöldin. Öll kvöldin verða tónlistarviðburðir. Þeir sem koma fram eru m.a. DJ Ísak & Ernir, Jón Jónsson, Sigga Ózk, hljómsveitin Meginstreymi, Björgvin frá IDOL og Júlí Heiðar. Fjölbreytt afþreying verður líka í boði fyrir börn yngri en 10 ára og allt ókeypis. 

Tjaldsvæði

Tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna er innifalið í þátttökugjaldi mótsins. Svæðið er staðsett á Kárastöðum sem er rétt utan við Borgarnes. Þeir sem óska eftir aðgengi að rafmagni á tjaldsvæði þurfa að ganga frá greiðslu fyrir því um leið og gengið er frá kaupum á þátttökugjaldi. Verð fyrir rafmagn er 4.900 kr. fram til 29. júli. Eftir þann tíma hækkar verð upp í 6.900 kr.   

Tjaldsvæði mótsins er skipt upp í svæði eftir íþróttahéruðum. Þátttakendur á tjaldsvæði eru hvattir til þess að merkja við rétt nafn á íþróttahéraði svo mótshaldarar geti raðað tjaldsvæði upp eftir fjölda tjalda/hýsa frá hverju íþróttahéraði.

Á svæðinu verða snyrtingar, rennandi vatn, rafmagn og gæsla frá björgunarsveitum. Strætó mun ganga frá svæðinu að aðal keppnissvæðinu frá kl. 08:30 og fram yfir síðustu keppnisgrein.   

Þjónustumiðstöð

Þjónustumiðstöð mótsins verður staðsett í Hjálmakletti/Menntaskólanum á fimmtudegi og föstudegi. Á laugardegi og sunnudegi verður hún staðsett í grunnskólanum sem er beint fyrir ofan aðal íþróttasvæðið.

Í þjónustumiðstöðinni er tekið á móti mótsgestum, skráning fer fram og gestir fá afhent mótsgögn.

Einstök upplifun

Unglingalandsmót UMFÍ er einstök upplifun fyrir alla fjölskylduna. Samvera og gleði frá morgni til kvölds þar sem allir finna verkefni við sitt hæfi og á sínum forsendum. Allir á aldrinum 11-18 ára geta keppt á mótinu. 

Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í íþróttafélag né æfa íþróttir. Þátttakendur þurfa heldur ekki að vera með lið til að geta keppt í ýmsum greinum, svo sem körfubolta eða fótbolta. Við búum til lið fyrir þátttakendur sem ekki eru í liði eða komum viðkomandi í lið.

Heilmikil afþreying er í boði á Unglingalandsmótinu. Bæði foreldrar og yngri og eldri systkini sem ekki ætla að keppa í greinum geta notið hennar og fá allskonar verkefni alla daga mótsins. 

Nánari upplýsingar

Framkvæmdastjóri mótsins er Ómar Bragi Stefánsson. Netfang: omar@umfi.is. Sími 898 1095.