Fara á efnissvæði

UMFÍ

Saga

Sumardagur á Þingvöllum 1907

Það var mikið um að vera á Þingvöllum við Öxará, hinum fornhelga samkomustað íslensku þjóðarinnar, föstudaginn 2. ágúst 1907. Mikill mannfjöldi var saman kominn til að halda þjóðhátíð, aðra í röðinni frá því þjóðhátíðin mikla fór þar fram árið 1874. Mörg stórmenni voru samankomin og hæst bar að þarna var mættur konungur Íslands og Danmerkur með fríðu föruneyti til að heiðra þegna sína. Íslenskir ráðamenn fjölmenntu á staðinn og fréttablöð þess tíma sögðu vandlega frá verju fótspori þeirra og konungsins og síðar voru gefnar út bækur til minja um þessa heimsókn. Á staðnum voru meira en sex þúsund manns komnir víða að af landinu og einnig frá útlöndum.

Þennan dag sýndu átta glímukappar konungi íþrótt sína á völlunum og glímdu af fræknleik. Glíman vakti mikla athygli enda hafði einn keppandinn, Jóhannes Jósefsson frá Akureyri, strengt þess heit að sigra í glímunni eða heita minni maður ella. Enginn landsleikur nútímans í knattspyrnu hefur vakið viðlíka athygli og konungsglíman 1907 og ekki var rætt um annað meira meðal þjóðarinnar mánuðum saman en hvort sunnlenskum glímuköppum tækist að lækka rostann í þessum loftmikla Norðlendingi. Jóhannesi tókst ekki að sigra, hann hlaut tvær byltur í keppninni og varð í þriðja sæti. Hann vann þó meira afrek síðar um daginn, þegar hann stóð ásamt fimm öðrum ungum mönnum að stofnun heildarsamtaka ungmennafélaga á Íslandi og var kjörinn formaður þeirra. Þessi samtök hlutu nafnið Ungmennafélag Íslands og hafa allar götur síðan verið merkisberi ungmennafélagshreyfingarinnar.

Á þennan atburð var lítið minnst í blöðunum enda snerist allt um þá fyrirmenn sem þarna voru. Enginn vissi hvers var að vænta af þessum svokölluðu ungmennafélögum. Nú, heilli öld síðar, eru gleymdar allar hátíðaræður, húrrahróp og hyllingar til hefðarmanna þessa tíma en allir þekkja félagasamtökin sem litu dagsins ljós á fámennum fundi þennan sumardag. Þau hafa eflst og dafnað og náð fótfestu hvarvetna um byggðir landsins. Stofnun UMFÍ reyndist vera merkasta framlag þessarar samkomu til þjóðarinnar þótt fæsta hafi grunað það í upphafi.

Vormenn Íslands, bls. 21.

Vormenn Íslands

Í bókinni Vormenn Íslands er að finna sögu UMFÍ í 100 ár. Höfundur bókarinnar er Jón M. Ívarsson.

Vormenn Íslands

Landsmót UMFÍ frá 1909 - 2013

Á myndbandinu hérna fyrir neðan er að sjá ljósmyndir og upptökur frá fyrsta Landsmóti UMFÍ sem haldið var árið 1909 og til ársins 2013 á Selfossi.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Marteinn Sigurgeirsson safnaði upptökunum saman á einn stað. Á upptökunum má m.a. sjá viðtöl við Svein í Kálfskinni, Gísla Halldórsson, Reyni Karlsson, Hafstein Þorvaldsson, Hörð Óskarsson sundkennara og marga fleiri. Að auki er að sjá margt forvitnilegt sem dæmi má nefna upptöku frá Laugarvatni árið 1965 þegar hljómsveitin Mánar spiluðu í fyrsta sinn opinberlega.