Algengar spurningar
Hvað ... og hvernig? Við höfum tekið saman lista yfir helstu spurningar.
Geta öll skráð sig á Unglingalandsmót UMFÍ?
Ýmislegt er gott að vita áður en komið er á Unglingalandsmót UMFÍ. Mótið fer fram í Borgarnesi dagana 1. - 4. ágúst. Það er fyrir öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára og fjölskyldur þeirra. Opið er fyrir skráningar á mótið til klukkan 16:00 mánudaginn 29. júlí.
Þarf ég að vera í íþróttafélagi?
Hvorki er krafa um að stunda íþróttir né æfa með tilteknu íþróttafélagi. Engu að síður skrá þátttakendur sig á mótið undir merkjum síns íþróttahéraðs. Ef þið búið sem dæmi í Hafnarfirði þá er keppt undir merkjum Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH).
Borgfirðingar skrá sig undir Ungmennasambandi Borgarfjarðar (UMSB) og fólk af Suðurlandi skráir sig undir merkjum Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK), Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu (USVS) nú eða Íþróttabandalags Vestmannaeyja (ÍBV), Akureyringar skrá sig undir Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) eða Ungmennasambandi Eyjafjarðar (UMSE) og svo má lengi telja.
Hafðu í huga að listinn er langur enda öll íþróttahéruð landsins talin upp á skráningarsíðunni svo öll geti verið með. Innan UMFÍ eru nefnilega næstum öll íþróttafélög landsins.
Undir liðnum Algengar spurningar má finna ítarlegri upplýsingar undir Íþróttahéruð: Skoða upplýsingar
Það er líka kostur að vita undir merkjum hvaða íþróttahéraðs þú ert því þau niðurgreiða þátttökugjaldið. Hlutfallið er mishátt. Þú sérð niðurgreiðsluna þegar þú skráir þig á Unglingalandsmótið.
Skrá á Unglingalandsmót UMFÍ
Þegar þú gerir það velurðu á skráningarsíðu mótsins nafn héraðssambandsins eða íþróttabandalagsins sem þú tilheyrir, hvaða barn eða börn þú skráir. Eftir að búið er að greiða fyrir þátttöku á mótinu er hægt að velja íþróttagreinarnar.
Hvað með tjaldsvæði?
Jú, aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna fylgir með miða á mótið. Aðeins þarf að greiða fyrir rafmagn og kostar það 4.900 krónur. Verðið hækkar reyndar í 6.900 krónur eftir 29. júlí.
Hér greiðir þú fyrir rafmagn á tjaldsvæðinu
Íþróttahéruð fá úthlutað svæði á tjaldsvæðinu og þess vegna eruð þið þegar komin með úthlutað svæði. Þarna gefst líka gott tækifæri til að kynnast nýju fólki af ykkar svæði. Ef vinátta verður til er jafnvel hugmynd að smella í lið í einhverri skemmtilegri grein - eða í afþreyingu með nokkrum.
Þurfum við að ganga mikið?
Tjaldsvæði Unglingalandsmótsins er við Kárastaði, sem er í jaðri Borgarness. Gönguleiðir eru þaðan að íþróttasvæði bæjarins. Þetta er ekki löng leið. Við hvetjum mótsgesti til að leyfa bílum sínum að hvíla sig yfir helgina og annað hvort ganga á mótssvæðið. Líka er boðið upp á mjög margar strætóferðir. Strætó verður með stoppistöð á tjaldsvæðinu og gengur hann viðstöðulaust frá morgni til kvölds eins nálægt íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og hægt er að komast. Farið er innifalið í þátttökugjaldinu.
Í hverju er keppt?
Á Unglingalandsmótum UMFÍ er ævinlega boðið upp á fjölda keppnisgreina. Í ár eru þær 18 talsins.
Þetta eru greinarnar:
Badminton - Bogfimi - Borðtennis - Frjálsar íþróttir - Glima - Golf - Grasblak - Grashandbolti - Hestaíþróttir - Hjólreiðar - Knattspyrna - Kökuskreytingar - Körfubolti - Pílukast - Skák - Stafsetning - Sund - Upplestur.
Þú getur skoðað miklu meira um hverja grein á umfi.is.
Hvenær keppt í grasblaki og upplestri?
Þú finnur alla dagskrá hér. Athugaðu að ef breyting verður á dagskrá þá látum við alla vita af því með öllum mögulegum hætti. Breytingar birtast fyrst á umfi.is:
Greinarnar eru langflestar miðsvæðis í Borgarnesi. Flestar greinarnar taka aðeins einn dag nema frjálsar íþróttir, sem standa yfir í tvo daga.
Hvað á liðið að heita?
Nokkrar greinar mótsins eru liðsgreinar og algengt er að þátttakendur skíri lið sín hressilegum og skrautlegum nöfnum. Oft má því sjá lið eins og Ofurhetjurnar, Rothöggið, Sveppasulturnar, Bleiku banana og fleiri skemmtileg lið í flottum búningum.
Við skráningu í liðakeppni þarf hver og einn að ganga frá sinni skráningu, fyrst til að skrá sig. Viðkomandi stofnar liðið og eftir það geta aðrir skráð sig í liðið með að skrifa nafn liðsins.
Ef þið eruð ekki með fullskipað lið, þá er hægt að bæta við liðsmanni með að senda tölvupóst á umfi@umfi.is.
Ef þú ert einstaklingur ekki með lið en vill taka þátt, þá skráir hann sig á mótið og velur við skráningu „án liðs”. Við hjá UMFÍ munum síðan setja viðkomandi þátttakanda í frábært lið.
Liðakeppni er í eftirfarandi greinum:
Grasblak – 2 inná, mega vera 4 í liði (hvernig eru innáskiptingarnar)
Handbolti – 4 inná, mega vera 8 í hóp
Knattspyrna – 5 inná, mega vera 8 í hóp
Körfubolti - 3 inná, mega vera 5 í liði.
Skoða greinarnar
Hvernig skrái ég í greinar?
Hlekkur til að skrá þátttakanda í greinar er undir liðnum skráningar í Abler-appinu (velur shop - skammstöfun þína efst í hægra horni og velur kvittun fyrir greiðslu þátttökugjalds á Unglingalandsmótinu). Hlekkurinn er líka á kvittun sem barst í tölvupósti fyrir greiðslunni.
Hvað er fleira í boði?
Margt fleira er í boði fyrir alla fjölskylduna á Unglingalandsmótinu en keppni fyrir 11 - 18 ára. Engar áhyggjur! Mamma og pabbi, Sigga litla og Kári litli og stóri bróðir geta prófað allskonar greinar alla dagana. Fjölskyldan getur skellt sér í fjölskylduskokk á fimmtudeginum, frisbígolf, í kynningu á bogfimi, jóga, pickleball, blindrabolta, farið í leikjagarðinn, tekið þátt í sundleikum, axarkasti og mörgu fleiru.
Tónleikar verða á hverju kvöldi á meðan Unglingalandsmótinu stendur. Tónleikarnir fara fram í risastóru samkomutjaldi sem verður á tjaldsvæðinu og enginn getur sagst ekki hafa tekið eftir því.
Tónleikarnir eru innifaldir í þátttökugjaldinu og geta allir sem vilja sótt þá.
Á tónleikunum koma fram DJ Ísak og Ernir, bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór, GDRN, Sigga Ózk, Björgvin úr Idolinu, hljómsveitin Meginstreymi og Júlí Heiðar. Orri Sveins mun síðan stýra brekkusöng á lokakvöldinu.
Þú getur skoðað alla dagskránna á umfi.is:
Unglingalandsmót UMFÍ er einstök upplifun fyrir alla fjölskylduna. Samvera og gleði frá morgni til kvölds þar sem allir finna verkefni við sitt hæfi og á sínum forsendum. Allir á aldrinum 11-18 ára geta keppt á mótinu.
Skráning hér
Almennar upplysingar
Hvenær byrjar Unglingalandsmótið?
Unglingalandsmót UMFÍ hefst með keppni í fimmtudaginn 1. ágúst. Strax fyrsta kvöldið verður boðið upp á tónleika í risastóru skemmtitjaldi sem verður á tjaldsvæðinu.
Strax klukkan 9:00 daginn eftir hefst keppni í körfubolta 15-18 ára. Grashandbolti fer fram á sama tíma.
Keppt verður í hverri grein aðeins einn dag fyrir utan frjálsar íþróttir sem verður keppt í á tveimur dögum. Þetta var gert í fyrsta sinn á Sauðárkróki á síðasta ári og voru bæði þátttakendur og forráðafólk afar ánægt með fyrirkomulagið.
Svo öll verði með
Allar nýjustu upplýsingar um mótið birtast á umfi.is og samfélagsmiðlum UMFÍ.
Þátttakendur og mótsgestir Unglingalandsmótsins munu fá reglulegar upplýsingar um mótið í tölvupósti í aðdraganda mótsins og líka á meðan því stendur.
Allar upplýsingar verða líka aðgengilegar á vefsíðu mótsins og samfélagsmiðlum UMFÍ.
Þú getur líkað við þessar síður og fylgst með öllum nýjustu upplýsingunum hér:
Heimasíða Unglingalandsmóts UMFÍ
Þú getur skoðað myndir frá síðasta móti á Flickr.
Skoða myndir
Ertu með spurningar varðandi mótið? Þú getur fundið svör við flestu hér:
Svör við spurningum á Unglingalandsmóti
Ertu með fleiri spurningar? Sendu okkur hana á umfi@umfi.is eða smelltu í spurningu á samfélagsmiðlum okkar.