Marteinn Sigurgeirsson: „Það bunaði upp úr þeim fróðleikur um mótin“
Nú í haust kom út heimildamynd um sögu landsmóta UMFÍ á svæði Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Þetta er forvitnileg mynd enda gaman að sjá myndefni frá löngu liðnum tíma og þróun mótanna frá því sem áður var. Kvikmyndagerðarmaðurinn Marteinn Sigurgeirsson segir mikilvægt að fanga söguna í mynd svo hún gleymist ekki.
Marteinn Sigurgeirsson segir fræjum myndarinnar hafa verið sáð á Landsmóti UMFÍ á Selfossi árið 2013. „Ég hafði tekið saman myndefni sem var látið rúlla á sögusýningu í tengslum við mótið. Texta og tal vantaði og var Jón M. Ívarsson söguritari fenginn til að útskýra fyrir fólki það sem fyrir augu bar. Eftir mótið vaknaði áhugi á því að fanga sögu landsmótanna á HSK-svæðinu í mynd,“ segir Marteinn og bendir á að prímusmótorinn hafi verið sögu- og minjanefnd Ungmennafélags Selfoss.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem Marteinn vinnur fyrir ungmennafélagið. Hann er borinn og barnfæddur Selfyssingur og hefur lengi haldið utan um gamlar myndaupptökur, varðveislu og skráningu þeirra fyrir UMFÍ. Skemmst er að minnst hundrað ára afmælis UMFÍ árið 2008 en þá skipulagði Marteinn meðal annars sögusýningu UMFÍ í Gerðarsafni þar sem gamlar myndir voru látnar rúlla með textum. Hann gerði jafnframt mynd um íþróttafrömuðinn Þorsteinn Einarsson árið 2016.
„Eftir Landsmótið á Selfossi 2013 fór ég í gang, lagðist í viðtöl og fór um sambandssvæðið. Þetta var töluverð vinna. Við náðum viðtölum við fólk sem var á landsmótinu sem Sigurður Greipsson endurvakti í Haukadal árið 1940, Þorvald Hafsteinsson og Jóhannes Sigmundsson og fleiri sem tengdust öðrum mótum og mundu eftir þeim. Þeir Þorvaldur og Jóhannes gengu um sýninguna og ég tók upp á meðan bunaði upp úr þeim fróðleikur um mótin,“ segir Marteinn en rifjar upp að í sumum tilfellum sé mjög gott myndefni til frá gömlu mótunum. Þau hafi sum hver verið tekin upp á 16 mm filmur og geymst vel. Sem dæmi var gerð kvikmynd um mótið í Hveragerði 1949 og gott efni á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni 1965. Mótið þar var eftirminnilegt fyrir gríðarlegan mannfjölda sem það sótti og hitabylgjuna sem þá geisaði,“ segir hann.
Mikilvægt að skrásetja söguna
Marteinn segir vel haldið utan um myndefni frá Landsmótum UMFÍ. Því hafi verið komið fyrir á Kvikmyndasafni Íslands í Hafnarfirði, skráð þar og geymt við rétt hitastig. „Menn vönduðu sig hér áður fyrr, fengu fagmenn í verkið og tóku upp á góðar filmur. Nú eru komnir góðir skannar til að yfirfæra myndefnið á stafrænt form,“ segir hann og bætir við að áhugavert væri að skrásetja söguna í fleiri fjórðungum á meðan fólk er enn á lífi sem var á staðnum og man söguna. „Eins og sagt er um tryggingar, þá myndar maður ekki eftir á,“ segir hann.
Ég man ekki alveg hvar þessar myndir af mótunum voru teknar. Það er nóg að hafa eina mynd. Þetta er sennilega á Landsmótinu í Haukadal sem Sigurður Greipsson endurvakti 1940.
Greinin birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Allt blaðið er hægt að lesa á vef www.umfi.is: