Fara á efnissvæði

31. janúar 2024

Stjórnarfólk UMFÍ: Hvað er framundan?

„Í mínum huga er þessi ákvörðun hreyfingarinnar ein sú stærsta sem tekin hefur verið á okkar vettvangi á síðari tímum og getur skapað fjölmörg tækifæri,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ. Hér ræðir Jóhann Steinar um samþykkt á lottóreglum- og úthlutunum samhliða stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða. Sú vinna er í samvinnu við Mennta- og barnamálaráðuneytið og ÍSÍ og á meðal annars að tryggja aukið fjármagn ríkisvaldsins til starfseminnar. 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, skrifuðu rétt fyrir síðustu jól undir samning um starfsstöðvarnar. Þeim er ætlað að Þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins og ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.

Jóhann Steinar ræðir um sambandsþingið, starfsstöðvarnar og Verkefni UMFÍ næstu misserin í nýjasta tölublaði Skinfaxa. 

Á myndinni hér að ofan má sjá hann með dóttur sinni, Hönnu Magneu.

 

Meðbyr með hreyfingunni

Eitt mikilvægasta verkefnið nú, er að hans mati að vinna úr niðurstöðu sambandsþingsins.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að vel takist til við að ná utan um verkefnið og innleiðingu þess. Á sama tíma verðum við einnig að passa að missa ekki sjónar á okkar daglegu störfum og halda áfram að taka á móti ungmennum í Skólabúðunum að Reykjum og skipuleggja landsmótin okkar, auk þeirra fjölmörgu verkefna sem UMFÍ stendur fyrir, á borð við Ungt fólk og lýðræði og útgáfu Skinfaxa,“ segir hann.

Hvernig sérðu hreyfinguna þróast á næstu árum? 
„Ég finn ákveðinn meðbyr með ungmennafélagshreyfingunni og þeim gildum sem hún stendur fyrir. Með aukinni samvinnu og betra skipulagi tel ég okkur betur í stakk búin að virkja kraftinn sem býr í hreyfingunni. Ef við beinum þeim krafti í réttar áttir mun hann hjálpa okkur við að takast á við áskoranir og gera okkur kleift að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast. Þannig getum við stuðlað að því að allir geti tekið þátt í starfinu á sínum forsendum með gleði og gaman að leiðarljósi.“ 

Hvernig er aðkoma þín að UMFÍ? 
„Sem barn og unglingur tók ég þátt í fjölmörgum íþróttagreinum þó að knattspyrna, handknattleikur og körfubolti hafi fengið mesta tímann. Ég æfði með Fylki í Árbænum, ÍA á Akranesi og að lokum Stjörnunni í Garðabæ. í Garðabænum jókst áhuginn á félagsstarfinu og var ég í meistaraflokksráðum karla og kvenna í handknattleik auk þess sem ég var í meistaraflokksráði karla í knattspyrnu. Þá tók ég að mér ýmis hlutverk, s.s. dómgæslu, tímavörslu og liðsstjórn. Samhliða dróst ég inn í aðalstjórn Stjörnunnar og endaði þar sem formaður félagsins. Eftir að ég dró mig í hlé eftir aldarfjórðungs gefandi starf í Garðabænum leið ekki á löngu þar til félagsþörfin gerði vart við sig og ég gaf kost á mér í stjórn UMFÍ,“ segir Jóhann Steinar að lokum. 

 

Rætt er við Jóhann Steinar Ingimundarson og dregin upp nærmynd af honum og öðru stjórnarfólki í nýjasta tölublaði Skinfaxa. Viðtölin má öll lesa í blaðinu, sem er aðgengilegt á www.umfi.is

Nýjasta tölublað Skinfaxa

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.

 

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

 

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.