Dagur, tími og staðsetning
Dagsetning: Laugardagur 8. júní.
Tími: 14:00 - 16:00.
Staðsetning: Þjónustumiðstöð sveitarfélagsins.
Mæting klukkan 13:45.
Kynja- og aldursflokkar
Einn kynjaflokkur, 50 ára og eldri.
Keppnisfyrirkomulag / reglur
- Dæmt er eftir hraða, fjölda, leikni, hreinlæti, útliti og bragðgæðum.
- Uppskriftina velur keppandinn sjálfur að því undanskildu að í henni eiga að vera 150 grömm hveiti og að minnsta kosti 1 egg (meðalstórt).
- Keppandi leggur fram nákvæma uppskrift áður en keppni hefst. Nafn keppanda, heimilisfang og símanúmer skal koma fram á blaðinu.
- Mótshaldari leggur til algeng efni í pönnukökur: Hveiti, sykur, egg, mjólk, smjörlíki, matarolíu, lyftiduft, sódaduft (natron), sítrónudropa, vanilludropa og kardimommudropa. Ef óskað er eftir öðrum efnum/bragðefnum eða einhverri sérstakri tegund af hráefni verða keppendur að útvega þau sjálfir og hafa meðferðis. Keppandi skal þó nota það hveiti sem mótshaldari leggur til.
- Hver keppandi fær vinnuborð með rafmagnshellu, áhald til að hræra deigið með, ausu, skál, mæliílát, sigti, sleikju, vinnudisk, kökufat og borðklút.
- Keppendur koma með eigin pönnukökupönnu og pönnukökuspaða. Heimilt er að koma með ausu og áhald til að hræra deigið með. Ekki er þó heimilt að nota rafmagnsþeytara.
- Áður en keppni hefst eru rafmagnshellur prófaðar, áhöldum raðað og allt tekið til í deigið. Leyfilegt er að blanda þurrefnunum í skál áður en keppni hefst, en ekki skal setja vökva eða byrja að hræra deigið saman fyrr en keppni er hafin.
- Í lokin er 10 pönnukökunum skilað upprúlluðum með sykri en hinar tvíbrotnar í horn.
- Keppni er ekki lokið fyrr en pönnukökum hefur verið komið fyrir á kökufati og gengið frá vinnuborði, áhöldum raðað og borðið þvegið.
Stigatafla
Hraði og fjöldi (25 stig)
- Fjöldi – 10 stig (20 kökur gefa 10 stig, 19 kökur gefa 9 stig osfrv.)
- Hraði – 15 stig (17 mínútur gefa 15 stig, 18 mínútur gefa 14 stig osfrv.)
Leikni og hreinlæti (25 stig)
- Örugg vinnubrögð – 5 stig
- Umgengni á vinnusvæði meðan bakað er – 5 stig
- Frágangur á pönnukökum á fati – 5 stig
- Frágangur á vinnusvæði – 5 stig
- Frágangur uppskriftar – 5 stig
Útlit (25 stig)
- Engin göt – 5 stig
- Allar kökur rétt lagaðar – 5 stig
- Allar kökur samlitar – 5 stig
- Engin kaka hrá eða brennd – 5 stig
- Engin kaka kekkjótt – 5 stig
Bragðgæði (25 stig)
- Góðar pönnukökur gefa mest 25 stig ,Sæmilegar pönnukökur gefa mest 15 stig.
- Slæmar pönnukökur gefa mest 5 stig.