Fara á efnissvæði
07. júní 2024

101 árs sýndi línudans á landsmóti

Gunnar Jónsson, þátttakandi í línudansi á Landsmóti UMFÍ 50+ er sönnun þess að hreyfing bætir árum við lífið og gleði við árin. Gunnar sýndi listir sínar með línudanshópi við setningu Landsmóts UMFÍ sem fram fór í kvöld.

Gunnar er elsti þátttakandi mótsins enda fagnaði hann 101 árs afmæli 7. maí síðastliðinn. Gunnar og aðrir þátttakendur línudanshópsins eru skráðir til leiks undir merkjum Íþróttabandalags Reykjanesbæjar (ÍRB), sem er nýorðinn sambandsaðili UMFÍ.

Gunnar er ekki einasta elsti þátttakandinn heldur eini karlmaðurinn í tveimur línudanshópum sem kom fram við setningu landsmótsins.

 

Aldrei of seint að byrja

Gunnar er fæddur í Austurey í Laugardal í Árnessýslu árið 1923. Hann er fyrrverandi skipstjóri og byrjaði að stunda líkamsrækt árið 2017, þá rúmlega níræður.

Gunnar sagði í viðtali við Völu Matt á Stöð tvö árið 2020 aldrei oft seint að byrja að stunda líkamsrækt. Hann sjái reyndar eftir því að hafa byrjað svona seint, en verið alltaf á sjónum og ekki haft mikinn tíma fyrir sjálfan sig.

Gunnar sagði í spjalli við Völu hafa fallið fyrir línudansi. „Hreyfingin er svo breytileg og margbrotin. Maður mátt hafa sig allan við að muna sporin og þau gleymast stundum. Maður man þau síðan alltaf þegar músíkin byrjar,“ sagði hann.

Sjá viðtal við Gunnar á Stöð 2

Gunnar býr í Reykjanesbæ og sækir þjónustumiðstöðina Nesvelli þar í bæ. Þar hefur Eygló Alexandersdóttir kennt dans um nokkurra ára skeið og það hlýtur að hafa ýtt undir dansáhugann.

Eygló þekkir vel til Landsmóts UMFÍ 50+ enda hefur hún oft tekið þátt á mótinu víða um land með stórum hópi íbúa í Reykjanesbæ, meðal annars í pönnukökubakstri og fleiri greinum.

Eins og sjá má vakti danshópurinn heilmikla lukku við setningu mótsins enda svo til á heimavelli.

Á myndunum hér að neðan má sjá Eygló í pönnukökubakstri á Landsmóti UMFÍ 50+ á Ísafirði árið 2016 og með línudanshópnum spræka við setningu mótsins í Vogum í kvöld.