Fara á efnissvæði
18. júlí 2023

Ekta íslensk sveitaballastemning með Danssveit Dósa

Sveitaball á Unglingalandsmóti UMFÍ

„Við erum ekta íslenskt sveitaballaband og spilum lög sem okkur finnast skemmtileg, lög með hljómum, laglínum og lög sem virkilega er hægt að syngja með,‟ segir Sæþór Már Hinriksson, sjálfur hljómsveitarstjórinn Dósi í hinni skagfirsku Danssveit Dósa.

Hljómsveitin treður upp í samkomutjaldinu á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki föstudagskvöldið 4. ágúst. Þetta verður sannkölluð þruma enda munu foreldrar þátttakenda þarna fá gömlu sveitaballastemninguna beint í hjartað því Danssveit Dósa spilar m.a. íslenska tónlist úr áttunni og níunni með Skítamóral, Sálinni og Stuðmönnum.

Í Danssveit Dósa eru átta tónelsk músíkgoð framtíðarinnar úr Skagafirðinum. Þar á meðal er söngkonan Malen Áskelsdóttir, sem kom fram á Bræðslunni í Borgarfirði eystra í fyrra, og Krakkafréttastjarnan Gunnar Hrafn Kristjánsson. Öll í bandinu eiga ættir að rekja til Skagafjarðar og eru öll á milli tvítugs og þrítugs. 

Eftirspurn eftir íslensku stuðpoppi

Danssveit Dósa var stofnuð í Skagafirði fyrir þremur árum. Þá vomaði reyndar COVID-faraldurinn yfir öllu og ekkert hægt að gera. En það var gott fyrir sveitina, sem nýtti tímann til að æfa lög og stilla saman strengi.

„Okkur langaði til að spila saman gömlu góðu lögin, íslensk popplög. Það hafði ekki verið starfandi hljómsveit í Skagafirði í nokkur ár og við vildum halda þessum menningararfi við, tónlistinni í Skagafirði og sveitaballastemningunni. Við höfum þróast síðan þá og erum farin að spila fjölbreyttara efni. En við leggjum upp úr alvöru fjöri og skemmtun svo sem flestir geti sungið með og dansað,“ segir Dósi sem sjálfur spilar á gítar og syngur bakraddir. Hann bætir við að þau hafi verið á hárréttum tíma, því þótt sveitaböllin heyri fyrir löngu sögunni til þá sé mikil eftirspurn eftir hljómsveitum sem geti haldið uppi góðu fjöri við ýmis tækifæri.

Danssveit Dósa spilar orðið út um allt og má með sanni kalla sveitina hirðband Tindastóls, enda spilar bandið oft á viðburðum íþróttafélagsins.

„Það má óska eftir lögum. Ef einhver vill heyra Nínu þá skellum við í það!“ segir Dósi og lofar heilmiklu stuði þegar bandið kemur fram á Unglingalandsmóti UMFÍ á föstudagskvöldinu.

Tónleikar á hverju kvöldi

Tónleikar eru öll kvöldin á meðan Unglingalandsmóti UMFÍ stendur um verslunarmannahelgina. Mótið hefst fimmtudaginn 3. ágúst og mun dj Heysi halda stuðinu uppi fyrsta kvöldið. Á föstudeginum kemur Danssveit Dósa fram, á laugardagskvöldinu troða upp Herra Hnetusmjör, Emmsjé Gauti og Valdís og mótinu loka þau Magni, Guðrún Árný og Jón Arnór og Baldur með tónleikum og brekkusöng.

Opið er fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ á www.umfi.is. Mótið er fyrir alla þátttakendur frá 11 ára til 18 og fjölskyldur þeirra. Miðað er við aldur þátttakenda og geta þau sem verða 11 ára á árinu tekið þátt í öllum greinum.

Boðið er upp á fjölda greina eins og: Hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, frisbígolf, frjálsar íþróttir, golf, grasblak, grashandbolta, hestaíþróttir, hjólreiðar, júdó, knattspyrnu, kökuskreytingar og körfubolta, pílukast, stafsetningu, skák, sund og upplestur.

 

Allar upplýsingar og skráning er á umfi.is