Fara á efnissvæði
20. júní 2024

Silja er verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ

„Ég mætti á mitt fyrsta Unglingalandsmót UMFÍ með fjölskylduna á Sauðárkróki í fyrra. Þetta var stórskemmtileg helgi. Við vorum mjög hrifin og ég er eiginlega svekkt yfir því að hafa ekki kynnst þessu móti fyrr af því að við ætlum að mæta aftur,“ segir Silja Úlfarsdóttir. 

Silja hefur verið ráðin verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer í Borgarnesi um verslunarmannahelgina í samstarfi við Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) og Borgarbyggð. Hún mun vinna með Ómari Braga Stefánssyni, framkvæmdastjóra móta UMFÍ, að skipulagningu mótsins. 

Silja er Hafnfirðingur í húð og hár og landsþekkt sem afrekskona í frjálsum íþróttum á árum áður. Nú er hún þjálfari í hlaupum og frjálsum íþróttum hjá FH í Hafnarfirði. Hún hefur jafnframt unnið hjá ÍBR við viðburðahald og kynningarmál ásamt því að tengjast fleiri viðburðum. Silja heldur líka úti hlaðvarpinu Klefinn þar sem hún ræðir við íþróttafólk úr ýmsum greinum. 

„Ég er mjög spennt að komast inn í teymi Unglingalandsmóts UMFÍ og að skipulagningu mótsins í Borgarnesi. Ég vonast líka til að sjá sem flesta þar,“ segir hún. 

 

Öll fjölskyldan á Unglingalandsmót

Unglingalandsmót UMFÍ er fjölskyldu- og íþróttaviðburður sem hefur fest sig í sessi sem útihátíð ársins um hverja verslunarmannahelgi hjá fjölda fólks. 

Á Unglingalandsmóti UMFÍ geta 11-18 ára þátttakendur valið um að keppa í 18 greinum. Þar á meðal er badminton, bogfimi, borðtennis, frjálsar íþróttir, golf, glíma, grasblak, grashandbolti, kökuskreytingar og margar fleiri greinar. 

Passað er upp á að öll fjölskyldan hafi nóg að gera alla verslunarmannahelgina og geta mamma og pabbi og yngri og eldri systkini valið úr viðburðum. Tónleikar og uppákomur verða á hverju kvöldi með hressu og þekktu tónlistarfólki. 

Þátttökugjald á Unglingalandsmót UMFÍ er 9.400 krónur og er innifalið í því aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, þátttaka í öllum keppnisgreinum, viðburðum og tónleikum á hverju kvöldi. 

Opnað verður fyrir skráningu á mótið 2. júlí næstkomandi á www.umfi.is.

 

Skoða meiri upplýsingar um mótið